Leit hefst í birtingu

Leit við Kúagerði í gær.
Leit við Kúagerði í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að ekki hafi tekist að ljúka leit á Strandarheiði í gærkvöldi og því hefjist leit þar að nýju í birtingu.

Að sögn Þorsteins taka björgunarsveitarmenn og leitarhundar þátt í leitinni þar. Aðgerðarstjórn björgunarsveita er enn að störfum og í góðu samstarfi með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem stýrir leit að Birnu Brjánsdóttur.

Fulltrúar lögreglunnar og björgunarsveita munu funda klukkan 9 og þar verður tekin ákvörðun um framhaldið, hvort Birnu verði leitað í dag og ef svo er, hvar.

Leit hófst á Strandarheiði í kjölfar ábendingar sem lögreglu barst í tengslum við rannsóknina á hvarfi Birnu aðfaranótt laugardags. Að sögn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns barst ábendingin nokkuð snemma í ferlinu og var henni fylgt eftir með leit á svæðinu í gær. Þeirri leit verður haldið áfram að hans sögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert