Margir hafa leitað sér aðstoðar

Leitað að Birnu Brjánsdóttur.
Leitað að Birnu Brjánsdóttur. mbl.is/Eggert

„Við erum með fjóra sálfræðinga sem hafa verið með foreldra Birnu í handleiðslu og sömuleiðis vini hennar. Allajafna eru þeir tveir. Vinahópnum hefur verið skipt í tvennt til þess að tryggja að hver og einn fái sem mesta aðstoð,“ segir Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, í samtali við mbl.is en samtökin virkjuðu í fyrradag viðbragðsteymi sitt til þess að veita ættingjum og vinum Birnu Brjánsdóttur, sem leitað hefur verið, sálrænan stuðning.

„Þessi aðstoð hefur að okkar mati skilað árangri og þetta telur. Slíkur stuðningur er kannski ekki síst mikilvægur í máli sem þessu þar sem það hefur farið svo mikið fram í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Umræðan hefur oft verið ónærgætin,“ segir Björn. Slíkt þýði meira álag fyrir þá sem standi Birnu næst. Mikilvægt sé að hafa aðstandendur í huga í þeim efnum.

„Síðan höfum við verið með aukaviðbúnað á hjálparsímanum 1717. Mikið hefur verið hringt í hann. Margir taka málið greinilega inn á sig sem er skiljanlegt. Jafnvel fólk sem tengist henni ekki beint. Þetta er það sem við höfum verið að fást við undanfarna tvo daga,“ segir Björn. Margir séu á milli vonar og ótta. Við þær aðstæður geti alls kyns tilfinningar komið fram og engin skömm sé vitanlega að því að leita sér liðsinnis við að greiða úr þeim.

„Við hvetjum fólk til þess að hafa samband við 1717 ef það er að taka málið mikið inn á sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert