Veita skipverjum áfallahjálp

Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi. Fjórir skipverjar hafa nú …
Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi. Fjórir skipverjar hafa nú verið handteknir, þrír vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur og einn vegna fíkniefna sem fundust um borð. mbl.is/Eggert

Unnið er að því að veita áhöfn Polar Nanoq áfallahjálp og koma upplýsingum til ættingja skipverja. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem útgerðarfyrirtækið Polar Seafood sendi frá sér nú síðdegis. Þar kom jafnframt fram að fyrirtækið muni áfram veita íslensku lögreglunni alla þá aðstoð sem það getur. 

Togarinn mun halda kyrru fyrir í Hafnarfjarðarhöfn á meðan lögregla lýkur rannsókn sinni um borð, en Polar Nanoq kom aftur til hafnar í Hafnarfirði um klukkan ellefu í gærkvöldi.

Þá höfðu þrír skipverjar verið handteknir og hafa tveir þeirra nú verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn lögreglu á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur til spurst frá því aðfaranótt laugardags.

„Í nótt leitaði lögregla í skipinu og ræddi við aðra skipverja. Enginn þeirra er grunaður um aðild að hvarfi Birnu,“ segir í yfirlýsingunni.

„Lögreglan rannsakar að auki fund á umtalsverðu magni á hassi um borð í skipinu. Einn skipverji til viðbótar hefur verið handtekinn í tengslum við rannsókn lögreglu á því máli. Togarinn heldur kyrru fyrir í Hafnarfjarðarhöfn á meðan lögreglan lýkur rannsókn sinni um borð.

„Polar Seafood mun áfram aðstoða yfirvöld á Íslandi vegna málanna og vonar að þau upplýsist sem fyrst. Þá leggur fyrirtækið sig fram um að koma upplýsingum til ættingja skipverja, auk þess sem unnið er að því að útvega áhöfninni áfallahjálp og leitað hefur verið aðstoðar hjá Rauða krossi Íslands,“ segir í yfirlýsingu Polar Seafood.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert