Ýmsar vísbendingar fundist í skipinu

Polar Nanoq við bryggju í gærkvöldi.
Polar Nanoq við bryggju í gærkvöldi. mbl.is/Eggert

Ýmsar vísbendingar hafa fundist um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq við leit lögreglu þar í nótt og í dag sem nýtast í rannsókninni um hvarf Birnu Brjánsdóttur. Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Við rannsökuðum skipið hátt og lágt og höfum ekki lokið rannsókninni. Við erum ennþá með skipið á okkar vegum og fórum aftur í leit þar í dag. Það komu ýmsar vísbendingar sem hafa notast í málinu en ég get ekki farið út í hvað það er,“ segir hann. 

Verulegt magn af hassi um borð

Eins og fjallað hefur verið um fundust fíkniefni um borð í skipinu en Grímur segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða verulegt magn af hassi. Ekki hafi aðrar tegundir fíkniefna fundist um borð. 

- En hefur eitthvað komið fram í yfirheyrslum yfir mönnunum sem nýst getur við rannsóknina?

„Ég get ekki á þessu stigi fjallað um hvað kemur fram í þeim,“ segir Grímur. 

Þá segir hann að ekki liggi fyrir ákvörðun um gæsluvarðhald yfir þriðja skipverjanum sem var handtekinn rétt fyrir klukkan 8 í gærkvöldi, en nú fari fram yfirheyrslur yfir honum og ákvörðun verði tekin í framhaldi þess. Lögreglan hefur tíma til klukkan 19.45 í kvöld til að ákveða hvort farið verði fram á gæsluvarðhald. 

50/50 líkur á gæsluvarðhaldi

- Telurðu líklegt að fari verði fram á gæsluvarðhald?

„Ég myndi segja að það væru svona 50/50 líkur á því,“ segir Grímur.

Þá segir hann yfirheyrslur nú vera að hefjast yfir fjórða manninum sem var handtekinn fyrr í dag. 

Aðspurður segir Grímur að mennirnir hafi ekki komið við sögu lögreglu hér á Íslandi og enn hafi ekki borist upplýsingar um hvernig þeirra ferill er í Grænlandi. 

- En hafa komið fram frekari upplýsingar um hvar Birnu er að finna?

„Birna hefur ekki fundist en við höfum lagt áherslu á þetta svæði þar sem var leitað í dag. Að hluta til var það vegna þess að í gær sýndu víðavangsleitarhundar áhuga á þessu svæði svo það var ákveðið að fara með sporleitarhund þangað. Það var það sem var í gangi í dag,“ segir Grímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert