Ferðir bílsins raktar

mbl

Talið er líklegt að Birna Brjánsdóttir hafi farið upp í bíl tveggja skipverja af Polar Nanoq á Laugavegi. Bíll sem þeir voru með á leigu, rauður Kia Rio, sést á eftirlitsmyndavélum við götuna á sama tíma og Birna, um kl. 5.25 að morgni laugardagsins 14. janúar.

Lögreglan hefur ekki enn getað staðfest með óyggjandi hætti að um sama bíl sé að ræða og fer síðar um morguninn að Hafnarfjarðarhöfn þar sem togarinn Polar Nanoq lá við bryggju. Þá hefur hún ekki enn getað staðfest að þetta sé sami bílinn og sjáist á eftirlitsmyndavélum við áhaldahús Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar nokkrum mínútum áður en hann birtist á vélum Hafnarfjarðarhafnar. Unnið er þó út frá þeirri kenningu að þetta sé sami bíllinn.

Þá er það „upplýst ágiskun“ lögreglunnar, út frá upptökum úr eftirlitsmyndavélum í miðbæ Reykjavíkur, að Birna hafi farið upp í bíl mannanna.

45 mínútur á leið frá Laugavegi að höfninni

Sé um sama bílinn að ræða hefur það tekið hann 45 mínútur að fara frá Laugavegi og að höfninni, þ.e. frá kl. 5.25 og til 6.10 er hann sést við höfnina fyrst þann morguninn. Tuttugu mínútum áður en bíllinn kemur að höfninni eru síðast numin merki frá farsíma Birnu við mastur í Hafnarfirði. Í kjölfarið er slökkt á símanum handvirkt.

Enn er verið að fara í gegnum myndbandsupptökur í þeim tilgangi að kortleggja ferðir hans betur. Aðeins er hægt að staðfesta að bíll skipverjanna hafi verið við Hafnarfjarðarhöfn því mennirnir sjást stíga út úr honum og að auki sést bílnúmerið. Hald var lagt á þennan sama bíl við Hlíðasmára í Kópavogi síðasta þriðjudag, 17. janúar. Hann er nú til rannsóknar hjá tæknideild lögreglunnar. 

Lögreglan hefur sagt að sýni úr bílnum, m.a. lífsýni, hafi verið send til útlanda til frekari rannsóknar og greiningar.

Skipverjarnir eru grunaðir um refsiverða háttsemi og segir lögreglan að grunurinn beinist að „gríðarlega alvarlegu“ broti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert