Ofbeldismenn í haldi lögreglu

Lögreglan handtók mann í heimahúsi í Austurbænum á fimmta tímanum í nótt fyrir líkamsárás og heimilisofbeldi. Annar maður er í haldi lögreglu vegna sams konar ofbeldisbrota í Hafnarfirðinum í nótt en sá var handtekinn upp úr tvö í nótt fyrir heimilisofbeldi og líkamsárás. Báðir ofbeldismennirnir gista fangaklefa vegna rannsóknar mála þeirra. 

Um þrjú í nótt var tilkynnt um mann í geðrofi á heimili í Kópavogi. Þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að maðurinn var undir áhrifum einhverra efna en ekki er tiltekið í dagbók lögreglu hvers konar efni var um að ræða. Hann veittist að lögreglumönnum með spörkum og höggum og því var hann handtekinn og fluttur í fangageymslu lögreglu við Hverfisgötu. Hann verður yfirheyrður síðar í dag, að sögn lögreglu.

Tilkynnt var um líkamsárás í Austurbænum í nótt en árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn. Fórnarlambið var flutt á slysadeild til aðhlynningar en meðal annars þurfti að sauma nokkur spor í höfuð þess. 

Um hálfsex í morgun var tilkynnt um húsbrot í Breiðholti. Lögreglan handtók mann á staðnum sem hafði sparkað upp hurð og farið inn í sameign. Hann er vistaður í fangaklefa vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert