Ætlum að finna Birnu í dag

Hátt í 500 björgunarsveitarmenn taka þátt í leitinni að Birnu …
Hátt í 500 björgunarsveitarmenn taka þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur nú um helgina. mbl.is/Eggert

„Við erum hérna til að leita að Birnu og við ætlum að finna hana í dag,“ sagði Ingólfur Haraldsson sem er í svæðisstjórn björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu við hátt í 500 björgunarsveitarmenn sem voru samankomnir á tíunda tímanum í morgun í húsakynnum Björgunarfélags Hafnarfjarðar.

Það fór ekki fram hjá neinum sem nálgaðist Klett, húsakynni björgunarsveitarinnar, að eitthvað mikið var um að vera. Gata sem venjulega er róleg iðaði nú af lífi, upphækkuðum fjórhjóladrifnum bílum björgunarsveita víða að af landinu var lagt meðfram allri götunni og á nærliggjandi stæðum. Bílastæðið við Klett var sömuleiðis fullt.

„Við erum hérna til að leita að Birnu og við …
„Við erum hérna til að leita að Birnu og við ætlum að finna hana í dag,“ sagði Ingólfur Haraldsson sem er í svæðisstjórn björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu við leitarmenn. mbl.is/Eggert

Allir með sama markmið í huga

Þá var rýmið í Kletti sem venjulega hýsir bíla björgunarsveitarinnar, en hefur gegnt hlutverki aðgerðarstöðvar í leitinni að að Birnu Brjánsdóttur, fullt af björgunarsveitarfólki sem var komið víðs vegar að af landinu. Allir með það sama markmið í huga að finna Birnu, sem ekkert hefur til spurst frá því síðasta laugardag.

Og fólk fylgdist einbeitt með aðgerðafundi, hlustaði á lýsingar af því hverju leita bæri eftir og fékk úthlutað sínum svæðum. Smám saman fækkaði í hópinum inni er leitarfólk hélt út í morguninn með verkefni dagsins í símanum.

 „Þetta er náttúrulega bara hræðilegt og við vonum að hún finnist,“ sögðu þau Helga María, Belinda og Samúel frá Björgunarfélagi Akraness sem voru mætt til að taka þátt í leit helgarinnar.

Fólk fékk úthlutað verkefnum og upplýsingar um leitarsvæði.
Fólk fékk úthlutað verkefnum og upplýsingar um leitarsvæði. mbl.is/Eggert

Björgunarsveitin Garðar á Húsavík átti einnig sína fulltrúa í Kletti, sömuleiðis voru 25 manns komin austan af Jökuldal og Fljótsdalshéraði. Þá voru björgunarsveitir af Vestfjörðum og úr nágrenni höfuðborgarinnar, til að mynda frá Kjalarnesi og Reykjanesi, á staðnum sem og fjöldi annarra.

Konur úr hundasveitinni biðu þá á staðnum eftir að fá sínum leitarsvæðum úthlutað. Nokkrar voru búnar að vera að taka þátt í leitinni undanfarna daga með snjóflóða- og víðavangshunda, en aðrar voru að koma ferskar inn. Ýmsir björgunarsveitarmenn af höfuðborgarsvæðinu voru einnig mættir galvaskir á staðinn til að halda áfram leitinni að Birnu sem hluti þeirra hefur tekið þátt í alveg frá upphafi.

Uppfært kl. 11.10:

TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, lagði af stað frá Reykjavíkurflugvelli kl. 11 til að taka þátt í leitinni. Leitað verður víðs vegar á Reykjanesskaga. Með í för verða tveir björgunarsveitarmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert