Dansarar líða af þokka yfir gólf

Silvursvanirnir. Guðrún Pétursdóttir á milli Soffíu Drafnar Marteinsdóttur kennara og …
Silvursvanirnir. Guðrún Pétursdóttir á milli Soffíu Drafnar Marteinsdóttur kennara og Brynju Scheving skólastjóra á meðan aðrir nemendur gera æfingar. Freyja Gylfa

Helgi Tómasson, frægasti ballettdansari Íslendinga, hóf ballettnám fimm ára, en eins og í mörgum listgreinum er almennt aldrei of seint að æfa ballett. Silfursvanirnir í Ballettskóla Eddu Scheving bera þess merki.

Brynja Scheving, skólastjóri skólans, ákvað að bjóða upp á námskeið fyrir 65 ára og eldri í haust og er með tvo hópa nú eftir áramót. Hún segir að ballett fyrir fullorðna hafi alltaf notið mikilla vinsælda og sú nýbreytni að nálgast eftirlaunaaldurinn hafi gefið góða raun.

Guðrún Pétursdóttir er í öðrum hópnum. Henni finnst svo mikill þokki yfir ballettinum, fallegur líkamsburður og mýkt, og eftir að hafa séð ljósmyndir af konum á sínum aldri að dansa hafi hún hrifist með. „Þegar kórsystir mín spurði hvort ég væri ekki til í að koma með sér á námskeiðið sló ég til.“

Ekkert mjálm

Eins og margar ungar stelpur var Guðrún í ballett þegar hún var lítil, byrjaði hjá Guðnýju Pétursdóttur á Lindargötu og fór síðan til meistara Eriks Bisted, fyrsta ballettmeistara Þjóðleikhússins. „Ég næ nánast aftur í forsögulegan tíma,“ segir Guðrún og hlær, „og það er gaman að taka upp gamlan þráð, þótt minningarnar úr tímum hjá Bisted séu blendnar, því hann var ansi strangur. Hann var eins og gamall hershöfðingi, skarpleitur og óþolinmóður, það var engin mildi, ekkert mjálm. Þú áttir bara að vera með rétta rist og þráðbein í baki, hárið í hnút og standa þína plikt.“

Guðrún segir að sér hafi alltaf fundist sú mjúka reisn, sem fylgir ballettinum, vera eftirsóknarverð. Vísar til Þórhildar Þorleifsdóttur og svilkonu sinnar, Bryndísar Schram. „Þær bera sig áreynslulaust svo vel og hafa svo fallegan limaburð. Mér finnst gaman að horfa á þessar konur hreyfa sig.“

Það er mikilvægt að brjóta aldursmúrana, eins og gert var þegar öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð var komið á, minnir Guðrún á. „Fram að því var of seint að læra til stúdentsprófs eftir tvítugt og sama máli gegnir með þær konur sem komu á svokallaðri frúarleikfimi um 1970. Nú finnst okkur sjálfsagt að allir fari í líkamsrækt á hvaða aldri sem er. Og 2017 er svo komið að konur á sjötugsaldri drífa sig í ballett – kannski ekki í tjullkjól og táskóm, en á sinn hátt. Maður svífur ekki í heljarstökkum, það er nógu erfitt að líða af þokka yfir gólf. Það reynir meira á en sýnist – alla vöðva líkamans þarf til að halda fallegri reisn og jafnri hreyfingu.“

Stóra sviðið er ekki enn í augsýn, en Guðrún segir eðlilegt að setja markið hátt þótt aðeins séu tvær kennslustundir að baki: „Ég stefni að því að dansa með flokknum mínum í búrkum, eða jafnvel á bak við tjald, undir nafninu Litli fílaflokkurinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert