Hafa fengið ábendingar varðandi bílinn

Ökumaður hvíta bílsins er beðinn um að hafa samband við …
Ökumaður hvíta bílsins er beðinn um að hafa samband við lögreglu.

Lögreglunni hafa borist ábendingar varðandi hvíta bílinn sem sást keyra vest­ur Óseyr­ar­braut í Hafnar­f­irði laug­ar­dag­inn 14. janú­ar klukk­an 12:24 en engin þeirra hefur leitt til þess að ökumaðurinn hafi fundist, segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. 

Þar sem myndin úr eftirlitsmyndarvélinni er óskýr þá hefur ekki verið hægt að segja með fullri vissu af hvaða tegund bíllinn er, segir Grímur, en talið er að þetta sé Honda Accord eða jafnvel gömul Mazda. 

Grímur Grímsson.
Grímur Grímsson. Morgunblaðið/Júlíus

Lögreglan leggur dag við nótt að fara yfir gögn málsins, svo sem úr farsímum mannanna sem eru í gæsluvarðhaldi og fyrirliggjandi gögn um farsíma Birnu en þeirri vinnu er hvergi nærri lokið enda flókið verk. Eins er farið yfir upplýsingar af bankareikningum þeirra og margt fleira sem hægt er að nýta við leitina að Birnu Brjánsdóttur sem hefur verið saknað síðan snemma á laugardagsmorguninn fyrir viku. 

Mennirnir tveir eru í einangrun á Litla-Hrauni en þangað voru þeir fluttir í gær eftir yfirheyrslur dagsins. Þeir voru ekki yfirheyrðir í dag og ekki er stefnt að því að yfirheyra þá á morgun nema eitthvað komi nýtt fram sem gefi tilefni til þess.

Yfir 500 björgunarsveitarmenn, alls staðar að af landinu, tóku þátt í leit að Birnu og munum sem gætu tengst hvarfi hennar, án árangurs. Um leið og birta tekur í fyrramálið hefst leit að nýju en þá verður leitað á svæðum sem ekki þóttu jafnlíkleg og þau sem voru leituð í dag.

Að sögn Gríms er ár­ang­ur­inn af leit­inni í dag sá að það er búið að fara yfir ákveðin svæði sem hægt er að leggja til hliðar sem leit­ar­svæði eft­ir þessa yf­ir­ferð þar sem ekk­ert hef­ur fund­ist sem hægt er að tengja við Birnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert