Dópaður og vopnaður undir stýri

mbl.is/júlíus

Fjölmargir ökumenn voru teknir annaðhvort ölvaðir eða undir áhrifum vímunefna undir stýri bifreiða í gærkvöldi og nótt á höfuðborgarsvæðinu. Einn þeirra var með barefli, hníf og hnúajárn á sér auk þess að vera ekki með ökuréttindi og undir áhrifum fíkniefna.

Lögreglan stöðvaði för hans við Arnarbakka um klukkan 18 í gær. Hann hefur ítrekað verið stöðvaður af lögreglu fyrir akstur án þess að hafa réttindi til þess að aka bifreið. Annar ökumaður var stöðvaður um 21 á sama stað og reyndist sá vera sviptur ökuréttindum og er um ítrekað brot að ræða hjá honum.

Tilkynnt um umferðaróhapp við Ásbraut/Klukkutorg um tvö í nótt en þar hafði bifreið hafnað utanvegar. Ökumaðurinn reyndist ölvaður og sviptur ökuréttindum. Hann er vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknarinnar. Bifreiðin reyndist ótryggð og númer hennar því fjarlægð.

Lögreglan stöðvaði bifreið á Reykjanesbraut í nótt en ökumaðurinn var undir áhrifum áfengis og fíkniefna auk þess sem hann var með fíkniefni á sér. Hann er vistaður í fangageymslu lögreglunnar vegna rannsóknar á máli hans.

Um áttaleytið í gærkvöldi var bifreið stöðvuð á Hringbraut en ökumaðurinn var undir áhrifum fíkniefna auk þess að vera sviptur ökuréttindum. 

Ölvaður ökumaður var stöðvaður á Sæbraut í gærkvöldi og í nótt var annar stöðvaður við Snorrabraut. Sá var undir áhrifum fíkniefna og ekki með ökuréttindi.

Um tvö í nótt var bifreið stöðvuð við Melabraut og var mikil kannabislykt í bifreiðinni. Farþegi var kærður fyrir vörslu fíkniefna. Ölvaður ökumaður var síðan stöðvaður í nótt í Tryggvagötu en hann var einnig með of marga farþega í bifreiðinni.

Ölvaður ökumaður var stöðvaður á Gullinbrú eftir að hafa farið yfir á rauðu ljósi. Um klukkan 23 var ökumaður stöðvaður við Vesturhóla en hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, akstur sviptur ökuréttindum og vörslu fíkniefna.

Um tvö í nótt var ökumaður stöðvaður í Ártúnsbrekkunni og reyndist hann undir áhrifum fíkniefna. Annar var stöðvaður um svipað leyti á Vesturlandsvegi, skammt frá Bauhaus og reyndist hann einnig undir áhrifum fíkniefna.

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði för ölvaðs ökumanns í miðbæ Reykjanesbæjar í nótt en að öðru leyti var nóttin róleg þar. 

Bifreið sem lögreglan stöðvaði á Reykjanesbraut við Sprengisand klukkan 20 í gærkvöldi var með röng skráningarmerki, ótryggð og hafði ekki verið færð til skoðunar, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert