„Ég er nánast klökkur að standa hér“

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn.
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Markmið dagsins er að leita um hundrað metra út frá veginum,“ sagði Ingólfur Haraldsson sem er í svæðisstjórn björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu. Hátt í fimm hundruð björgunarsveitarmenn voru mættir klukkan níu í morgun í húsakynni Björgunarsveitar Hafnarfjarðar til að taka þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur.

Svæðisstjórar björgunarsveitanna að störfum.
Svæðisstjórar björgunarsveitanna að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svæðið sem leitað er á í dag er víðfeðmt eða nánast allt suðvesturhorn landsins. „Svæðin eru mörg og lítil. Leitið vel, þetta er ekki hraðleit og það eru öll leitarsvæði jafnmikilvæg,“ sagði Ingólfur. Í gær var leitað á um 60% af svæðinu sem búið var að merkja. Björgunarsveitarmenn fá úthlutað svæðum sem þeir fínkemba og leita í öllum gjótum og hraunum. „Ef þið sjáið jarðrask eða annað þarf að leita þau svæði vel,“ sagði Ingólfur.

Úthlutun á verkefnum og leitarsvæðum.
Úthlutun á verkefnum og leitarsvæðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn tók næstur til máls og þakkaði björgunarsveitarmönnum fyrir sinn þátt í leitinni. „Ég er nánast klökkur að standa hér og það er heiður að fá að vera hérna með ykkur. Dýpstu þakkir frá innstu hjartarótum fyrir að gefa ykkur tíma í þetta,“ sagði Ásgeir Þór.

Hann áréttaði orð Ingólfs um að öll leitarsvæðin séu jafnmikilvæg. „Mín ósk til ykkar er að við förum út í þetta vongóð. Gangi ykkur vel í dag og umfram allt komið heil heim í enda dagsins.“

Leit að Birnu Brjánsdóttur að hefjast snemma á sunnudagsmorgni.
Leit að Birnu Brjánsdóttur að hefjast snemma á sunnudagsmorgni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Leit dagsins rædd.
Leit dagsins rædd. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert