Leitað við Suðurstrandarveg

Björgunarsveitir munu í kvöld halda áfram leitaraðgerðum vegna máls Birnu Brjánsdóttur. Að sögn Lárusar Steindórs Björnssonar, svæðisstjóra björgunarsveita á svæði 1, miðar leitin nú að því að finna vísbendingar sem geti varpað skýrara ljósi á atburðarásina frá því talið er að Birna hafi verið við Hafnarfjarðarhöfn og þar til hún fannst.

„Við erum nú að leita að allavega vísbendingum. Það er okkar hlutverk að aðstoða lögregluna við að útiloka ákveðin svæði og reyna að finna síðustu púslin í þeirri leið sem Birna fer frá Hafnarfjarðarhöfn og þangað sem hún finnst,“ segir hann.

Leitarsvæðið í kvöld afmarkast af Suðurstrandarvegi og verður leitað meðfram veginum sjálfum, öðrum vegum og vegaslóðum.

„Leitarsvæðið takmarkast við slóða og afleggjara sem liggja út frá Suðurstrandarvegi og að sjó,“ segir Lárus.

Gengið meðfram vegaslóðum

Hann segir að ekki verði fækkað í leitarhópum. Reynt verði að halda sama fjölda björgunarsveitarfólks og verið hefur síðustu daga.

„Það hefur verið ákveðið að halda hópnum eins stórum og við mögulega getum,“ segir hann.

Lárus segir að leitað verði fram eftir kvöldi á svæðinu, en stefnt er að því að klára leit á svæðinu í kvöld þannig að ekki verði leitað frekar. 

Leit við Suðurstrandarveg verður framkvæmd með sama hætti og sú leit sem fram hefur farið síðustu daga, með hjálp dróna, fjórhjóla og sexhjóla meðal annars, en stærstum hluta sinna gönguhópar.

Lárus segir mannskapinn enn ákveðinn og einbeittan í verkefninu. Hann þakkar hlýhug til björgunarsveitanna, ekki síst björgunarsveita annars staðar á landinu en á suðvesturhorninu. Hann segir mannskap hafa verið sendan landshorna á milli til að efla leitina enn frekar. 

Hann segir Slysavarnafélagið Landsbjörg ánægt með leitaraðgerðina og er hún talin hafa heppnast vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert