Gaf trúverðugar skýringar á veru sinni

„Nú er það rannsóknin sem er eftir, hún heldur áfram …
„Nú er það rannsóknin sem er eftir, hún heldur áfram á fullum dampi og við klárum þetta,“ sagði Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn um mál Birnu Brjánsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ökumaður hvíta bíls­ins, sem lög­regl­a lýsti eft­ir í fyrra­dag, er kom­inn í leit­irn­ar. Auglýst var eftir bílnum í tengslum við leitina að Birnu Brjánsdóttur, sem fannst látin í fjörunni við Selvogsvita í dag, eftir að hafa verið saknað í rúma viku, og reyndist hann er til kom ekki tengjast málinu.

„Við erum búin að ná að upplýsa hver bíllinn er og maðurinn og teljum að hann hafi gefið okkur trúverðugar skýringar á veru sinni þar,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn, sem fer með rannsókn málsins. Maðurinn hafi ekki tengst málinu á neinn hátt að því er virðist. „Hann bætti engu við þegar hann fannst, en þetta er einn af þessum endum sem þurfti að hnýta.“

Vinna að því að afla myndefnis frá Reykjanesskaga

Lögregla vinnur nú að því að afla myndefnis frá Reykjanesskaga til að geta kortlagt ferðir rauða Kia Rio-bílaleigubílsins sem mennirnir tveir, sem nú eru í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni vegna gruns um að bera ábyrgð á dauða Birnu, voru á ferð á laugardagsmorguninn 14. janúar. „Við gátum aðeins áttað okkur betur á því hvar við gætum leitað og erum að þræða þá staði,“ segir Grímur.

Hann segist þó ekki geta greint frá því hvort rauða Kia Rio-bifreiðin hafi sést á einhverri af myndbandsupptökunum til þessa. Lögregla hefur undanfarna daga staðið fyrir umfangsmikilli rannsókn til að reyna að rekja ferðir bílsins og hefur m.a. biðlað til ökumanna bíla með upptökubúnað og fyrirtækjaeigenda að hafa samband, telji þeir sig hafa myndefni af bílnum.

Ekki liggur enn fyrir hvort björgunarsveitirnar muni taka þátt í …
Ekki liggur enn fyrir hvort björgunarsveitirnar muni taka þátt í frekari leit að vísbendingum, en þær hafa tekið þátt í fínleit undanfarna daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bíllinn enn í rannsókn

Ekki liggur enn fyrir hvar Birna fór í sjóinn, né heldur hvernig hún lést. „Dánarorsök liggur alls ekki fyrir eins og fram kom á fundinum [með fréttamönnum í dag],“ segir Grímur en telur dánarorsök þó geta legið fyrir innan fárra daga.

Blóð sem fannst í bílnum og var sent utan til greiningar reyndist vera úr Birnu. Fram kom á fundinum í dag að lögregla telji að Birna hafi dáið í bílnum. Rannsókn á honum er enn ekki lokið að sögn Gríms. „Það eru fyrst og fremst tæknirannsóknir sem fara fram á honum og þeim er ekki lokið, en sú vinna er langt komin.“

Lögregla tók einnig lífsýni úr fatnaði um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq, þar sem mennirnir tveir eru skipverjar. Grímur gefur ekki upp hvort niðurstaða sé komin úr þeirri rannsókn, né heldur hvort tekist hafi að tengja lífsýnin sem fundust um borð við Birnu.

Lögregla hefur einnig verið með skipið sjálft til rannsóknar og segir Grímur lögreglu enn hafa umráð yfir því. Væntanlega verði þó tekin ákvörðun um það á morgun hvort Polar Nanoq verði leyft að fara.

Vantar nokkuð upp á að öll púsl séu komin

Grímur segir lögreglu þá hafa orðið nokkuð skýra mynd af atburðarásinni. „Við teljum okkur hafa nokkuð heillega mynd af því sem gerðist,“ segir Grímur. „En vissulega vantar nokkuð upp á það að öll púsl séu komin.“

Leit hefur staðið yfir að sönnunargögnum og vísbendingum í nágrenni Selvogsvita í dag. Spurður hvort munir, sem talið sé líklegt að hafi verið í eigu Birnu, hafi fundist segist Grímur ekki hafa heyrt af því. „Þannig að ég tel líklegt að svo sé ekki.“

Skoða frekari þátttöku björgunarsveita

Ekki er enn búið að ákveða endanlega hvenær mennirnir tveir verða yfirheyrðir á ný. „Það verður annaðhvort seint á morgun eða þriðjudaginn,“ segir Grímur.

Lögregla hefur fundað um rannsóknina í kvöld og mun funda aftur í fyrramálið. Þar verður m.a. rætt hvort björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem hafa undanfarna daga tekið þátt í fínleit, verði áfram þátttakendur í slíkum aðgerðum. „Þetta er hluti af því sem við munum ræða við björgunarsveitirnar, hvernig þær geti komið að frekari leit að sönnunargögnum,“ segir Grímur.

„Nú er það rannsóknin sem er eftir, hún heldur áfram á fullum dampi og við klárum þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert