Hundruð manna tendruðu kerti í Nuuk

Grænlendingar sýndu Íslendingum samhug með fallegum hætti.
Grænlendingar sýndu Íslendingum samhug með fallegum hætti. Ljósmynd/Ajaana Olsvig Kristjánsdóttir

„Þetta gekk mjög vel. Þarna var fullt af fólki, alveg 200 til 300 manns. Við kveiktum ljós, settum blóm við húsið og sungum Amazing grace á grænlensku,“ segir Ajaana Olsvig Kristjánsdóttir sem skipulagði samstöðuviðburð við ræðismannskrifstofu Íslands í Nuuk eftir að Birna Brjánsdóttir fannst látin við Selvogsvita í dag. 

Frétt mbl.is:Grænlendingar kveikja á kertum fyrir Birnu

„Ég er búin að fá nokkur skilaboð frá íslensku fólki sem býr á Grænlandi sem var mjög þakklátt fyrir þennan viðburð,“ sagði Ajaana í samtali við mbl.is. Þegar lík Birnu fannst við Selvogsvita hófst skipulagning á samstöðuviðburðum og voru þeir haldnir á sex mismunandi stöðum á Grænlandi í kvöld.

Fjöldinn allur var mættur á viðburðinn.
Fjöldinn allur var mættur á viðburðinn. Ljósmynd/Ajaana Olsvig Kristjánsdóttir

Rætt á hverju horni og heimili

„Þetta er sorgardagur, við erum öll mjög döpur og áhyggjufull,“ segir Aviâja E. Lynge, grænlenska konan sem setti hugmyndina fyrst fram á facebook. 

„Þetta er rætt á hverju horni, hverju heimili og hverjum vinnustað. Allt Grænland er að ræða þetta mál. Við fylgjumst náið með fréttum og reynum jafnvel að nota Google translate til að þýða íslenskar fréttir,“ segir Aviâja í samtali við mbl.is. 

Aviâja segir að margir sem hafi sýnt áhuga á að mæta hafi ekki komist vegna veðurs en úti er -17°C nístingskuldi og vindur. Margir settu hinsvegar kerti í gluggann. „Þetta er það eina sem við getum gert,“ segir Aviâja.

Kertunum var komið fyrir í snjónum.
Kertunum var komið fyrir í snjónum. Ljósmynd/Ajaana Olsvig Kristjánsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert