Skoða hafstrauma við rannsóknina

Lögregla mun m.a. skoða hafstrauma úti fyrir Selvogsvita til að …
Lögregla mun m.a. skoða hafstrauma úti fyrir Selvogsvita til að að reyna að komast að því hvar Birna var sett í sjóinn. mbl.is/Eggert

Lögregla leitar nú vísbendinga á þeim stöðum þar sem hún telur líklegt að Birna Brjánsdóttir, sem fannst látin við Selvogsvita í dag eftir að hafa verið saknað í rúma viku, hafi verið sett í sjóinn. Ekki liggur enn fyrir hvar Birna fór í sjóinn, en Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við mbl.is. að hann telji ólíklegra, frekar en líklegra, að Birna hafi verið sett í sjó þar sem hún fannst.

„Vinnan sem nú stendur yfir snýr meðal annars að því að finna þá staði miðað við hafstrauma, t.d. hvort líklegra sé að þetta hafi gerst fyrir vestan eða austan þennan fundarstað,“ sagði Ásgeir Þór. „Síðan reynum við að kíkja á einhverja af þessum líklegu stöðum. Leitum þar eftir vísbendingum og hvort einhvers staðar finnist jákvæð svörun.“

Lögregla hefur nú síðdegis verið við leit við Óseyrarbrú og spurður hvort talið sé að Birnu hafi verið varpað í sjóinn af brúnni segir Ásgeir Þór: „Það getur verið alveg jafnlíkleg ágiskun og hver önnur.“

Björgunarsveitarmenn að störfum í hrauninu við Herdísarvík í Selvogi.
Björgunarsveitarmenn að störfum í hrauninu við Herdísarvík í Selvogi. Mynd/Landsbjörg

Leita til Veðurstofunnar og heimamanna 

Ásgeir Þór kveðst ekki vera með það á hreinu hverjir ráðandi hafstraumar séu á svæðinu þar sem Birna fannst, né heldur hvernig vindáttin hafi verið laugardaginn 14. janúar þegar hún hvarf. „Við ætlum að leggjast yfir gögnin á morgun og finna þá sérfræðinga sem við þurfum til þess að hjálpa okkur að meta þessa hluti.“ Hann nefnir að þar verði m.a. leitað til sérfræðinga Veðurstofunnar, sem og sjómanna og heimamanna á svæðinu sem búi yfir þekkingu á því hvernig straumar beri hluti eftir ströndinni. „Það er rannsóknarvinna sem fer núna í gang.“

Það voru sérhæfðir leitarmenn á þyrlu frá Landhelgisgæslunni sem fundu Birnu þar sem hún lá í fjörunni undir Selvogsvita og segir Ásgeir Þór þyrluna hafa verið á lágflugi meðfram ströndinni við leitina að henni. „Þetta er aðferð sem hefur verið notuð í  mörg ár og komin er löng hefð og reynsla á.“  Aukamannskapur frá Landsbjörg var um borð í þyrlunni Landhelgisgæslunni til aðstoðar til að fylgjast með strandlínunni. „Þetta eru sérhæfðir leitarmenn sem eru vanir að vinna saman.“

Verið er að skoða þá hluti sem hafa fundist

Áfram hefur verið leitað vísbendinga og sönnunargagna eftir að Birna fannst. „Það hafa fundist hlutir sem er verið að skoða, en ekkert sem er búið staðfesta að tengist hvarfi Birnu. Rannsóknardeildin mun skoða þá.“

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, …
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, og Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn greindu frá því á fréttamannafundi í dag að Birna hefði fundist látin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Þór setur þó þann fyrirvara við að mikið sé búið að vera að gera frá því að Birna fannst og því sé möguleiki að honum sé ekki kunnugt um allt. Því sé ekki hægt að útiloka að eitthvað hafi fundist sem tengja megi málinu.

Spurður hvort lögregla eigi mikið myndefni úr eftirlitsmyndavélum eða frá ökumönnum frá þessum hluta Reykjanesskaga segir Ásgeir Þór lögreglu ekki hafa mikið myndefni frá Reykjanesskaga, en þó eitthvað. „Það er orðið hluti af rannsókninni núna.“

Langt komnir með að fylla upp í fjögurra tíma gatið

Hann segir lögreglu sömuleiðis vera langt komna með að fylla upp í fjögurra tíma gatið sem var varðandi ferðir rauða Kia Rio-bílaleigubílsins sem mennirnir tveir, sem nú eru í gæsluvarðhaldi og grunaðir eru um að hafa orðið Birnu að bana, voru á.

„Við erum búin að fylla upp í stóran hluta af því, það er ljóst. En við hefðum metnað til þess að reyna að kortleggja nánar og frekar ferðir þessa rauða bíls frá því hann fór frá Hafnarfjarðarhöfn og þangað til hann kom þangað aftur.“

Haft var eftir Ásgeiri Þór í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að staðsetningu skónna sem fundust við Hafnarfjarðarhöfn sl. mánudagskvöld hafi mögulega verið ætlað að afvegaleiða lögreglu. 

„Þetta er ágiskun, en þetta eru vissulega líkindi eins og hvað annað, að minnsta kosti er engin gáfuleg skýring á því,“ sagði Ásgeir Þór í samtali við mbl.is.

Síðustu hópar björgunarsveitarmanna voru að detta í hús þegar mbl.is ræddi við Ásgeir Þór og leit þeirra því að ljúka nú í kvöld eftir umfangsmiklar leitaraðgerðir nú um helgina.

Mikil keyrsla hefur sömuleiðis verið hjá lögreglu undanfarna viku. Ásgeir Þór kvaðst telja að þeir sem væru með rannsóknina ætluðu að hvíla í kvöld. „Þegar síðustu leitarhópar eru komnir í hús og farnir heim og við búnir að gera upp daginn í aðgerðastjórnstöðinni, þá hef ég nú trú á að ég fari heim til fjölskyldunnar.“

Birna fannst látin í fjöru undir Selvogsvita.
Birna fannst látin í fjöru undir Selvogsvita. Kort
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert