Aðstandendum veittur stuðningur

Hundruð sjálfboðaliða hafa komið að máli Birnu Brjánsdóttur á einn …
Hundruð sjálfboðaliða hafa komið að máli Birnu Brjánsdóttur á einn eða annan hátt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áfallateymi á vegum Rauða krossins hefur verið aðstandendum Birnu Brjánsdóttur innan handar síðustu vikuna. Að sögn Jóns Brynjars Birgissonar, sviðstjóra neyðarvarnasviðs, stendur stuðningurinn enn til boða en eftir að lík Birnu fannst við Selvogsvita í gærdag kallaði lögregla eftir aðstoð prests.

„Að beiðni lögreglunnar fórum við inn í þetta mál, bæði með stuðningi beint við nánustu aðstandendur og svo höfum við verið að fá vinahóp Birnu í handleiðslu og veitt vinnufélögum og svona stærra tengslaneti ráðgjöf,“ segir Jón Brynjar.

Í áfallateyminu er bæði starfsfólk Rauða krossins og sjálfstætt starfandi sálfræðingar sem vinna fyrir samtökin sem sjálfboðaliðar. Teymið hefur veitt aðstandendum beinan stuðning og handleiðslu en að sögn Jóns Brynjars hvetja samtökin fólk einnig til að nýta sér hjálparsíma Rauða krossins, 1717.

„Þá veitum við í rauninni ráðgjöf í gegnum síma. Þetta almenna tengslanet fólks dugir í rauninni flestum þannig að fæstir þurfa kannski beinlínis á sálfræðistuðningi að halda, nema kannski þeir sem standa allra næst.“

Jón Birgir segir Rauða krossinn í samskiptum við lögreglu um frekari aðkomu að málinu en prestur var með nánustu aðstandendum þegar þeim bárust fregnir af líkfundinum í gær.

„Við bökkuðum aðeins út í gær þegar þetta lá ljóst fyrir og prestur tók við. Þó stendur stuðningur okkar enn til boða og við erum í rauninni enn að í verkefninu.“

Nánir aðstandendur Birnu hafa verið í handleiðslu hjá áfallateymi á …
Nánir aðstandendur Birnu hafa verið í handleiðslu hjá áfallateymi á vegum Rauða krossins. mbl.is/Heiðar Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert