Áherslan var öll á að finna Birnu

Grímur Grímsson og Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónar hafa lagt nótt …
Grímur Grímsson og Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónar hafa lagt nótt við dag við að upplýsa málið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir að með þessari dapurlegu niðurstöðu, sem varð í rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur í gær, hafi málið breyst í hefðbundna rannsókn á manndrápi þrátt fyrir að auðvitað hafi það verið hluti af rannsókninni áður. En aðaláherslan hafi alltaf verið að finna Birnu. Hann segir að það sé ekki ólíklegt að áfram verði leitað að sönnunargögnum á þeim slóðum sem Birna fannst á næstu dögum.

„Það var lögð öll áhersla á að finna Birnu og síðan var þessi dapurlega niðurstaða þegar hún fannst látin. Við höfum ekki fengið 100% staðfestingu á að þetta sé hún en teljum að svo sé. Við fáum vonandi staðfestingu á því í kvöld,“ segir Grímur í samtali við mbl.is.

Grímur segir að tvímenningarnir sem sitja í einangrun á Litla-Hrauni verði annaðhvort yfirheyrðir í kvöld eða á morgun. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort yfirheyrslur fari fram í Reykjavík eða í fangelsinu að Litla-Hrauni.

Vísir greindi frá því í morgun að rauði Kia Rio-bíllinn sem annar mannanna hafði á leigu sé laskaður að framan. Grímur staðfestir við mbl.is að það hafi verið skemmdir á bifreiðinni en segir að lögreglan fari ekki nánar ofan í það hvaða skemmdir það voru. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert