Ekki ákært fyrir meint brot í friðlandi

Frá vettvangi málsins síðasta sumar.
Frá vettvangi málsins síðasta sumar. Ljósmynd/Rúnar Karlsson

Lögreglan á Vestfjörðum ætlar ekki að leggja fram ákæru vegna meintra brota í friðlandinu á Hornströndum í júní síðasta sumar. Ekki tókst að sýna fram á sekt þeirra sem í hlut áttu nema að hluta til. Þess í stað verður beitt sektarmeðferð í málinu.

Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, í samtali við mbl.is, en fréttavefur RÚV greindi frá þessu fyrr í dag. Mennirnir verða sektaðir fyrir að hafa ekki tilkynnt sig inn á svæðið og fyrir að hafa skotvopn meðferðis. Ekki tókst að sýna fram á að þeir hefðu skotið sel sem fannst í fjörunni.

Málið komst í hámæli eftir að starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækis komu að mönnunum í Hornvík þar sem þeir voru að hífa net úr sjónum. Sögðu starfsmennirnir að mennirnir hafi enn fremur verið með ýmiss konar veiðibúnað meðferðis og selshræið verið í fjörunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert