Foreldrar ræði við börnin

725 björg­un­ar­sveit­ar­menn hafa komið að leit­inni að Birnu síðustu daga.
725 björg­un­ar­sveit­ar­menn hafa komið að leit­inni að Birnu síðustu daga. mbl.is/Eggert

Þór­hall­ur Heim­is­son, prest­ur og ráðgjafi, segir að það sé mikilvægt að foreldrar ræði mál Birnu Brjánsdóttur við börn, sérstaklega ef þau eru forvitin. Aðalatriðið sé að þegja ekki hlutina í hel.

„Þegar erfiðir hlutir gerast þá er aðalatriðið að vera ekki að fela eða reyna að þegja hlutina í hel. Fólki hættir oft til að vilja ekki tala um hlutina og svara ekki börnum en það er ekki gott því þau heyra þetta. Ég á sjálfur einn lítinn sem spyr mikið um málið, fylgist með fréttum og það er verið að tala um málið í skólanum,“ segir Þórhallur í samtali við mbl.is.

Frá blaðamannafundi lögreglunnar í gær.
Frá blaðamannafundi lögreglunnar í gær. mbl.is/Eggert

Hann segir að það sé gott að foreldrar ræði málin af heiðarleika við börnin, án þess þó að fara um of út í smáatriði. „Í fyrsta lagi hvað hafi gerst og í öðru lagi að nú er hugur okkur með aðstandendum og ástvinum Birnu eins og alltaf þegar einhver missir einhvern sem hann elskar,“ segir Þórhallur en þannig átti börnin sig á því hvað hafi gerst. „Einnig að viðbrögðin séu þau að þó að við þekkjum þau ekki þá geti alltaf eitthvað komið fyrir hjá öllum í lífinu og þess vegna sé um að gera að sýna þeim kærleik í hjarta.

Börnin skilji hvað það er að sýna samstöðu að kærleik og þó þau geti ekkert gert, frekar en aðrir, þá geti þau hugsað og talað um það. Ef afi deyr og amma er eftir þá fara þau og knúsa ömmu, þau vita hvað það þýðir að sýna samstöðu og kærleik.“

Sér Þórhallur Heimisson.
Sér Þórhallur Heimisson. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert