Frá hvarfi til þjóðarsorgar

Birnu Brjánsdóttur var saknað í rúmlega átta sólarhringa. Fjölmargir tóku …
Birnu Brjánsdóttur var saknað í rúmlega átta sólarhringa. Fjölmargir tóku þátt í leitinni að henni, einnig almennir borgarar, fólk sem þekkti hana ekki neitt en tóku hvarf hennar nærri sér. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í fyrstu var hvarf Birnu Brjánsdóttur, tvítugrar stúlku úr Reykjavík, rannsakað sem mannshvarf. Málið tók þó fljótt aðra stefnu, og nú er talið víst að henni hafi verið ráðinn bani. Tugir lögreglumanna og hundruð björgunarsveitarmanna hafa komið að rannsókn málsins og leit að Birnu. Þeirri leit lauk í gær er Birna fannst látin.

Hvarf Birnu og andlát hennar hefur ekki látið einn einasta Íslending ósnortinn. Í gær kveiktu margir á kertum og minntust hennar. 

Íslenska þjóðin syrgir Birnu.

Samúð með foreldrum hennar, bróður, öðrum ættingjum og vinum er áþreifanleg.

Hér að neðan er málið rakið í máli og myndum.

Mynd úr eftirlitsmyndavél við Laugaveg

 Birna fór að skemmta sér með vinkonum sínum í miðborg Reykjavíkur föstudagskvöldið 13. janúar. Eftir að ljóst var að hún væri horfin var farið að skoða eftirlitsmyndavélar. Síðast sást til hennar á gangi við Laugaveg, hús nr. 31.

Á sama tíma sást rauðri Kia Rio-bifreið ekið framhjá húsinu. Strax var óskað eftir því að ökumaðurinn gæfi sig fram. Það gerði hann aldrei.

Móðir Birnu, Sigurlaug Hreinsdóttir, vakti athygli á hvarfi dóttur sinnar í opinni færslu á Facebook rétt fyrir kl. 20 á laugardagskvöld:

„Kæru vinir: Ekkert hefur frést af Birnu dóttur minni síðan um kl 2.00 aðfaranótt 14. jan á Húrra. Hún er vön að skila sér heim snemma og ólíkt henni að ekki sé hægt að ná í hana. Vinsamlegast látið ganga, finnum stelpuna !!“

Um miðnætti lýsti lögreglan formlega eftir henni. Í millitíðinni voru ættingjar, vinir og vandalausir farnir að leita að Birnu.

Á mánudeginum voru sérþjálfaðir björgunarsveitarmenn kallaðir til. Þeir leituðu vísbendinga í 300 metra radíus út frá þeim stað þar sem Birna sást síðast á eftirlitsmyndavélum.

Leitin var ítarleg en engar vísbendingar fundust. 

Klukkan 17 þann dag hélt lögreglan á höfuðborgarsvæðinu blaðamannafund. Yfirlögregluþjónarnir Ásgeir Þór Ásgeirsson og Grímur Grímsson svöruðu spurningum blaðamanna. Þeir stýrðu aðgerðum við leitina að Birnu annars vegar og rannsókninni á hvarfi hennar hins vegar.

„Hún er ekki að velja þetta, er ekki þannig stelpa,“ sagði Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu, eftir blaðamannafundinn. „Hún er ekki á flótta und­an ein­hverju og hefur ekki verið í efn­um. Það er ein­hvers staðar verið að halda henni, hún er ekki sjálf­vilj­ug ein­hvers staðar.“

Leit var haldið áfram fram á kvöld. Björgunarsveitarmenn leituðu m.a. í Heiðmörk og í Hafnarfirði. Leit þeirra skilaði engu en almenningur var einnig við leit. Að kvöldi mánudagsins bar sú leit árangur.

Skjáskot/Facebook-síða leitarinnar að Birnu Brjánsdóttur

Tveir almennir borgarar, sem voru við leit við Hafnarfjarðarhöfn, fundu skó, sambærilega þeim sem Birna var í er hún hvarf. Síðar var staðfest að skórnir væru hennar. 

Leitað var alla nóttina og svæðinu lokað af. Í birtingu hélt leitin svo áfram í og við höfnina. 

Ljósmynd/SigÓSig/Af Facebook-síðu lögreglunnar

Ágúst Svansson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni, var meðal þeirra sem stóðu vaktina við leitina að Birnu. Engar frekari vísbendingar fundust við leitina á þriðjudeginum en rannsókninni miðaði þó áfram.

Síðdegis á þriðjudeginum kom fram að myndefni úr eftirlitsmyndavélum Hafnarfjarðarhafnar staðfesti að rauði bíllinn, sem lýst hafði verið eftir og lagt var hald á fyrr um daginn, tengdist grænlenskum togara, Polar Nanoq.

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Polar Nanoq var í Hafnarfjarðarhöfn er Birna hvarf. Tveir skipverjar af togaranum sáust á eftirlitsmyndavélum koma út úr rauða bílnum snemma morguns, um kl. 6.10, aðeins 45 mínútum eftir að síðast sást til Birnu á Laugavegi. Togarinn lagði úr höfn um kvöldið, milli kl. 21 og 22. Hann hélt í átt að Grænlandsströndum. Skipinu var um kvöldið snúið aftur til hafnar á Íslandi og sigldi danska varðskipið Triton til móts við það. Fjórir íslenskir rannsóknarlögreglumenn voru þetta kvöld fluttir um borð í Triton.

Að morgni miðvikudags hélt leitin að Birnu enn áfram. Björgunarsveitarmenn gengu m.a. í nágrenni Keilis, þar sem bílljós höfðu sést á vegslóða að morgni laugardagsins. Snjór var yfir öllu. 

Kafarar héldu áfram að leita í Hafnarfjarðarhöfn að frekari vísbendingum. Ekkert fannst. 

Mynd/Landhelgisgæsla Íslands

Fyrir hádegi á miðvikudag, 18. janúar, fóru sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra með þyrlu Landhelgisgæslunnar út á miðin. Þeir sigu svo um borð í Polar Nanoq, tóku yfir stjórn skipsins og handtóku þrjá menn. Einum þeirra var síðar sleppt úr haldi.

Polar Nanoq kom að bryggju í Hafnarfirði um kl. 23 um kvöldið. Lögreglan fylgdi skipverjunum þremur, sem höfðu verið handteknir, frá borði. Þeir voru fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Ítarleg leit hófst þá þegar um borð í skipinu. Hald var m.a. lagt á fatnað og raftæki í eigu mannanna tveggja. 

Um hádegi á fimmtudeginum 19. janúar voru tveir skipverjar leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness og farið fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir þeim. Voru mennirnir úrskurðaðir í tveggja vikna varðhald. Þeir voru þá þegar grunaðir um manndráp.

Á föstudag upplýsti lögreglan að blóð hefði fundist í rauða bílnum. Á laugardag var staðfest að blóðið væri úr Birnu.

Ákveðið var síðdegis á föstudag að um helgina færi fram umfangsmikil leit á stóru svæði, allt frá Borgarfirði til Selfoss og á öllu Reykjanesi. Um var að ræða stærstu leit í sögu Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Að minnsta kosti 725 björgunarsveitarmenn komu að leitinni að Birnu. Sérstök áhersla var enn lögð á Reykjanesið.

Björgunarsveitarmenn tóku sér stuttar hvíldir frá leitinni um helgina og snæddu kjötsúpu og annað í höfuðstöðvum björgunarsveita í Hafnarfirði og víðar. Fyrirtæki og almenningur voru dugleg að gefa mat. 

Klukkan 13 í gær, sunnudag, tilkynnti áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar um líkfund í fjörunni við Selvogsvita, skammt frá Þorlákshöfn. Birna hafði fundist látin. Hennar hafði þá verið saknað í rúmlega átta sólarhringa.

Lögreglan hélt blaðamannafund síðdegis í gær. Lögreglumenn sem komið höfðu að málinu allt frá upphafi, m.a. Ásgeir Þór Ásgeirsson og Grímur Grímsson, greindu frá því að Birna hefði fundist. Þeir sögðu að yfirgnæfandi líkur væru á því að henni hefði verið ráðinn bani og mennirnir tveir, sem sitja í varðhaldi, bæru ábyrgð á því.

Birna Brjánsdóttir var fædd 28. nóvember árið 1996. Hún var því tvítug er hún lést. Birna á einn bróður. Foreldrar hennar eru Sigurlaug Hreinsdóttir og Brjánn Guðjónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert