Guðlaugur ræddi málefni norðurslóða í Noregi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra gerði aukið vægi norðurslóða á alþjóðavettvangi, sjálfbærni á svæðinu og málefni hafsins að umtalsefni í ræðu sinni í morgun á Arctic Frontiers-ráðstefnunni sem haldin er í Tromsø í Noregi.

Þá tók utanríkisráðherra þátt í pallborðsumræðum um málefni norðurslóða þar sem forsætisráðherrar Noregs og Finnlands og sendiherra Rússlands í málefnum norðurslóða voru meðal þátttakenda. Umræðunni stýrði fréttamaðurinn Stephen Sackur frá BBC-sjónvarpsstöðinni, að því er fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Samvinna ríkja á norðurslóðum er til fyrirmyndar. Við erum sammála um að hafa sjálfbærni að leiðarljósi í allri stefnumörkun á svæðinu og sporna við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga. Þá hafa málefni hafsins á norðurslóðum fengið aukinn sess í umræðunni sem er vel, enda hagsmunir okkar, sem fiskveiðiþjóð, þar mjög ríkir,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í tilkynningu.

Þá segir, að Guðlaugur hafi ennfremur fundað með Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og ræddu ráðherrarnir meðal annars norrænt samstarf, Brexit og stöðu mála í Evrópu.

Þá fundaði ráðherra með Frank Bakke-Jensen, Evrópumálaráðherra Noregs, um Brexit og EES-samstarfið.

„Ég hef sagt að fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu og hagsmunir Íslands þar að lútandi sé forgangsmál í utanríkisstefnunni, og því er mikilvægt að ráðgast við og skiptast á upplýsingum við norræna samráðherra,“ segir Guðlaugur Þór sem heldur til Danmerkur síðar í dag og tekur þar þátt í opinberri heimsókn forseta Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert