Hass óhindrað um íslenskar hafnir

Polar Nanoq eftir að skipinu var snúið til Íslands. Um …
Polar Nanoq eftir að skipinu var snúið til Íslands. Um borð fundust um 20 kíló af hassi við komuna til Íslands. Mynd/Landhelgisgæsla Íslands

Skipamiðlarar segja að þeir hafi ítrekað komið með ábendingar til tollayfirvalda um að hass sé um borð í skipum á leið til Grænlands. Því hefur hins vegar ekki verið sinnt. Tollayfirvöld segja að grænlensk skip hafi verið lítið skoðuð undanfarin þrjú ár. 

Elías Kristjánsson hjá Sjótaki hefur verið skipamiðlari undanfarin 16 ár. „Við höfum oft vitað til þess að það sé að fara hass frá skipum sem við erum með til Grænlands. Við höfum beðið um aðstoð frá tollinum um að koma og skoða skipið. Því hefur ekki verið sinnt,“ segir Elías.

Hann segir að alla jafna hafi samvinnan með tollinum verið góð. „En þetta er engu að síður staðreynd,“ segir Elías. 

Hann tekur það fram að þetta eigi alls ekki við um öll skip sem halda til Grænlands. En ef  grunur liggur á því að eiturlyf séu um borð, þá hefur verið beðið um aðstoð. Ósk um leit er sameiginleg ákvörðun miðlara, yfirmanna um borð og útgerðarfyrirtækisins.  „Við okkur er sagt að tollurinn hafi ekki tíma eða fjármagn til þess að fara í þessar aðgerðir,“ segir Elías.

Kom hingað frá Frederikshavn

Skipamiðlari fyrir Polar Nanoq, sem óskaði nafnleyndar, segir að skipið komi reglulega til Hafnarfjarðar eða á um tveggja vikna fresti með afla. Hann tekur í svipaðan streng spurður um hass sem fer um íslenskar hafnir. „Þegar skip hafa verið í löndun þá höfum við óskað eftir leit. Ekki það að menn gruni alltaf eitthvað. Fyrirtækin vilja bara fyrirbyggja að svona eigi sér stað. En þetta hefur ekki alltaf verið framkvæmanlegt,“ segir hann. 

Gert er ráð fyrir því að hass hafi alla jafna viðkomu hér á landi á leið sinni til Grænlands. Polar Nanoq kom hingað til lands eftir að hafa verið í Fredrikshavn í Danmörku í hvíld um jól og áramót. Eins og fram hefur komið fundust 20 kíló um borð í togaranum eftir að honum var snúið við frá veiðum út af Grænlandi til Íslands.

Spurning um tíma og fjármagn 

Snorri Olsen tollstjóri segir „ýmislegt til í því“ að bent hafi verið á hass um borð í skipum. „Við greinum slíkar ábendingar og metum hvernig sé rétt að bregðast við hverju sinni,“ segir Snorri.

Hann segir að ef ábendingin hljómi eins og menn séu með neysluskammta um borð í einhverju skipi, þá er það metið svo að ekki sé rétt að verja tíma í að elta slíkt.

Snorri Olsen
Snorri Olsen

„Þetta er spurning um tíma og fjármagn og hvaða aðgerðir eru líkegar til að skila árangri. Við vorum mikið í því að fara um borð í grænlenska togara hér áður fyrr út frá svona ábendingum. Fyrir um þremur árum drógum við úr því vegna þess að það kom eiginlega ekkert út úr því. Það kom fyrir að menn voru með einhverja neysluskammta sem þeir höfðu keypt í bænum eða áttu um borð til að nota úti á sjó. Ekki þótti réttlætanlegt að eyða tíma lögreglu og tollayfirvalda í það,“ segir Snorri. 

Hann bætir því við að mun meiri áhersla sé lögð á að stöðva innflutning en útflutning. „Fyrir okkur að ná einhverjum grömmum er ekkert stórmál. Sérstaklega ef það á leiðinni frá landinu. Okkar áherslur snúa fyrst og fremst að koma í veg fyrir smygl á fíkniefnum til Íslands. Ef það eru hins vegar ábendingar um eitthvað stórt þá höfum við náttúrlega elt það,“ segir Snorri.         

Um 228 milljóna virði 

Fram kom í grænlenska miðlinum Sermitsiaq að götuvirði hassins sem fannst um borð í Polar Nanoq sé að lágmarki 228 milljóna virði.

Þá er haft eftir Hans Enoksen, ráðherra sjávarútvegs og dýraveiða á Grænlandi, að gripið verði til harðra aðgerða verði áhafnir uppvísar að því að smygla fíkniefnum til Grænlands. Til greina komi að herða reglur um leyfisveitingar og úthlutun kvóta.

Hass
Hass
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert