Hefja löndun úr Polar Nanoq

Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn í morgun.
Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan hefur gefið leyfi fyrir því að þeim afla sem var um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq verði landað og er löndunin hafin. Þetta staðfestir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar þar sem togarinn liggur.

Fjórir skipverjar á Polar Nanoq voru handteknir í síðustu viku. Þrír vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur, sem fannst látin um helgina við Selvogsvita á Reykjanesi, og einn vegna mikils magns fíkniefna sem fannst um borð í skipinu. Einn hinna þriggja var fljótlega látinn laus þar sem ljóst þótti að hann tengdist ekki hvarfi Birnu. Fjórði maðurinn var dæmdur í gæsluvarðhald fram til dagsins í dag en hinir tveir voru dæmdir í tveggja vikna gæsluvarðhald.

Jørgen Fossheim, útgerðarstjóri Polar Seafood sem gerir Polar Nanoq út, sagði á föstudaginn að stefnt væri að því að togarinn færi aftur til veiða í dag eftir að fjórða skipverjanum hefði verið sleppt en hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi um helgina.

Spurður hvort Hafnarfjarðarhöfn hafi fengið tilkynningu um að Polar Nanoq væri á förum úr höfninni í dag segir Lúðvík svo ekki vera. Aðspurður segir hann vel hugsanlegt að skipið haldi úr landi í dag í ljósi þess að löndun sé hafin úr því og að hún muni ekki takan langan tíma.

„Þeir verða ekki lengi að landa. Þetta eru ekki nema 50 tonn. Við höfum ekki fengið neina tilkynningu um brottför. En við fengum tilkynningu um að það þyrfti að vigta. Þannig að löndunin er að byrja núna, lögreglan gaf leyfi fyrir því. Þetta klárast á nokkrum tímum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert