Játar sök að hluta

Snæbjörn Steingrímsson í héraðsdómi í dag.
Snæbjörn Steingrímsson í héraðsdómi í dag. mbl.is/Eggert

Snæbjörn Steingrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri SMÁÍS, Samtaka myndréttahafa á Íslandi, hefur játað sök gagnvart hluta þeirrar ákæru sem héraðssaksóknari hefur lagt fram á hendur honum.

Er í raun um að ræða nýja ákæru í málinu, sem fjallar um vanskil á virðisaukaskattskýrslum.

Áður hafði Snæbjörn neitað sök gagnvart ákæru um að hafa á árunum 2008 til 2014 dregið  sér um 7,4 milljónir króna frá félaginu, bæði af debetreikningi og með kreditkorti þess.

Við þingfestingu málsins í dag sagði dómari eðlilegt að ákærurnar tvær yrðu sameinaðar í einu máli, enda af sama meiði. Lögmaður Snæbjörns, Gísli Kr. Björnsson, sagði þá að greinargerð yrði ekki lögð fram af hálfu Snæbjörns.

7,4 milljónir á sjö árum

Í fyrri ákærunni, þar sem Snæbjörn hefur neitað sök, er hann ásakaður um að hafa á ár­un­um 2008 til 2014 dregið sér tæp­lega 640 þúsund af de­bet­reikn­ingi fé­lags­ins.

Þá er hann sagður hafa greitt með kred­it­korti fé­lags­ins til eig­in nota fyr­ir 6,8 millj­ón­ir, og látið und­ir höfuð leggj­ast að færa lög­boðið bók­hald fé­lag­ins árin 2008 til 2014.

Sam­tals nema því fjár­drátta­brot­in og umboðssvik­in um 7,4 millj­ón­um á tíma­bil­inu.

Veit­inga­hús, vín- og raf­tækja­búðir

Á meðal þeirra út­gjaldaliða sem nefnd­ir eru í ákær­unni er fjöldi reikn­inga á veit­inga­hús­um, krám, vín­búðum og raf­tækja­búðum. Stærstu stöku færsl­urn­ar eru í gegn­um Paypal og vegna greiðsla hjá bíla­sölu.

Þá eru einnig nokkr­ar út­tekt­ir úr hraðbönk­um. Færsl­urn­ar eiga sér bæði stað hér á landi sem og er­lend­is. Ákært er fyr­ir 17 færsl­ur á de­bet­reikn­ingi fé­lags­ins og 275 færsl­ur á kred­it­korti þess.

Lögmaður Snæ­björns sagði fyr­ir rétti í dag að papp­írs­magn ákær­unn­ar væri mikið, miðað við þær fáu færsl­ur sem getið væri í ákæru.

Farið fram á 4,9 millj­ón­ir í skaðabæt­ur

Í ákær­unni seg­ir að Snæ­björn hafi fengið kortið til að greiða til­fallandi út­gjöld tengd starf­semi SMÁÍS en að notk­un­in hafi hins veg­ar verið án heim­ilda og með öllu ótengd störf­um hans fyr­ir fé­lagið.

Farið er fram á að Snæ­birni verði gerð refs­ing og þá fer þrota­bú SMÁÍS fram á 4,9 millj­ón­ir í skaðabæt­ur og máls­kostnað vegna máls­ins.

Frétt mbl.is: Dró sér 7,4 milljónir af fjármunum SMÁÍS

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert