Könnuðu tengsl við hvarf danskrar stúlku

Stúlkan fannst látin á aðfangadag.
Stúlkan fannst látin á aðfangadag. Facebook/Missing People Denmark

Lögreglan hefur kannað hvort hugsanlega séu tengsl á milli hvarfs 17 ára danskrar stúlku í Korsør og hvarfs Birnu Brjánsdóttur. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem fer með rannsókn á máli Birnu, segir að Polar Nanoq hafi ekki verið í höfn í Danmörku þegar danska stúlkan hvarf. 

Margt er líkt með máli Birnu og dönsku stúlkunnar Emile Meng sem fannst látin á aðfangadag sl. eftir að hafa verið saknað frá því 10. júlí í fyrra. Polar Nanoq kom síðast til Íslands frá Danmörku. 

Fannst í 67 km fjarlægð í stöðuvatni 

Síðast sást til Meng á lestarstöðinni í Korsør aðfaranótt 10. júlí eftir að hún hafði verið að skemmta sér í nágrannabænum Slagelse. Á lestar­stöðinni kvaddi hún vinkonur sínar og ákvað að ganga heim til sín en vinir hennar tóku leigu­bíl.

Korsør er lítill hafnarbær og þar búa rúmlega 20 þúsund manns. Gríðarlega umfangsmikil leit var gerð að stúlkunni og olli hvarf hennar miklu fjölmiðlafári. Þrátt fyrir mikla leit fannst stúlkan ekki næstu mánuði eða allt þar til á aðfangadag þegar hún fannst í stöðuvatni í Borup sem er í um 67 kílómetra fjarlægð frá Korsør. Er það í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá þeim stað sem stúlkan sást síðast. 

Fórnarlamb glæps 

Danska lögreglan staðfesti á blaðamannafundi á jóladag að Meng hefði verið fórnarlamb glæps. „Það er ljóst að hún er fórnarlamb. Við getum hins vegar ekki tjáð okkur frekar um það vegna þess að rannsókn málsins er ekki komin lengra á veg,“ sagði Søren Ravn Nielsen aðstoðarlög­reglustjóri sem stjórnaði leitinni á fréttamannafundi í kjölfar þess að lík stúlkunnar fannst.

„Við vitum að hún hefur verið í vatninu í langan tíma. Líklega hefur henni verið komið þangað í kringum 10. júlí og við þurfum að ræða við fólk sem hefur verið á svæðinu á þeim tíma,“ bætti Søren Ravn-Nielsen við á fundinum. 

Uppfært: Sören Ravn-Nielsen sagði í skriflegu svari til mbl.is að dönsk lögregluyfirvöld hefðu  ekki kannað hvort hugsanleg tengsl gætu verið á milli málanna. Það verði  hins vegar gert.

Lögregluyfirvöld hérlendis ákváðu að kanna málið ekki frekar í ljósi þess að Polar Nanoq var ekki við bryggju í Danmörku.  

Polar Nanoq var ekki í Danmörku þegar stúlkan hvarf.
Polar Nanoq var ekki í Danmörku þegar stúlkan hvarf. Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert