Ímyndið ykkur skóla

Verkefnið fjallar um erfiðleika flóttabarna frá Sýrlandi við að mennta …
Verkefnið fjallar um erfiðleika flóttabarna frá Sýrlandi við að mennta sig. Ljósmynd/UNICEF/UN043236/Romenzi

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna í Líbanon, UNICEF, kynnir í dag stórt átaksverkefni sem kallast #ImagineaSchool. Verkefnið fjallar um erfiðleika flóttabarna frá Sýrlandi við að mennta sig og ná að halda áfram í skóla við þær erfiðu aðstæður sem þau búa við.

Héðinn Halldórsson, upplýsingafulltrúi UNICEF í Líbanon, tók þátt í vinnslu verkefnisins en það samanstendur meðal annars af viðtölum við sýrlensk börn vítt og breitt um Líbanon. Titill verkefnisins er fenginn frá tveimur stúlkum sem rætt var við en þær höfðu aldrei farið í skóla.

„Við erum búin að vinna að þessu undanfarna sex mánuði. Tilgangurinn var að sýna fram á að aðeins helmingur sýrlenskra barna í Líbanon gengur í skóla. Þetta er líka svona í öðrum löndum sem hýsa sýrlenska flóttamenn og við erum að benda á að alþjóða samfélagið þarf að gera betur,“ segir Héðinn í samtali við mbl.is.

„Við erum að benda á nauðsyn menntunar í viðbrögðum við fjölda flóttamanna frá Sýrlandi,“ bætir Héðinn við en talsverður fjöldi flóttamanna hefur aldrei farið í skóla.

„Við tókum upp viðtöl við 19 börn. Auk þess tókum við svokallaðar bekkjarmyndir en þar stilltum við upp allt að 80 börnum í bekk og fjarlægðum síðan þau sem höfðu ekki verið í skóla til að gera þetta sjónrænt,“ segir Héðinn.

„Það gerist oft í dag þegar talað er við sýrlenska flóttamenn að börnin hafa ekki menntun að baki. Þú tekur eftir því að þau hafa enga menntun og standa jafnöldrum sínum, sem hafa gengið í skóla, langt að baki,“ segir Héðinn en heimasíðu verkefnisins má nálgast hér að neðan:

Imagineaschool.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert