Ólíklegt að leitað verði áfram í dag

Björgunarsveitarfólk alls staðar af landinu tók þátt í leitinni um …
Björgunarsveitarfólk alls staðar af landinu tók þátt í leitinni um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki óskað eftir aðstoð björgunarsveita í dag og lítur Slysavarnafélagið Landsbjörg svo á að hlutverki þess sé lokið eftir að leit lauk í gærkvöldi nema eitthvað nýtt komi fram sem gefi tilefni til frekari leitar. Þá verði að sjálfsögðu brugðist við, segir Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Alls ekki sé útilokað að lögreglan óski eftir því að einhver svæði verði skoðuð aftur eða leitað á nýjum svæðum og þá geri björgunarsveitirnar það. Undanfarna viku hefur lögregla og svæðisstjórn björgunarsveita hist á fundi daglega til þess að fara yfir stöðu mála varðandi rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur en enginn slíkur fundur hefur verið boðaður í dag.

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, auk sérhæfðra björgunarsveitarmanna sem voru með um borð, fundu Birnu látna eftir hádegi í gær. Rúmlega átta dagar voru þá liðnir frá hvarfi hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert