Opnuðu fyrir neyðarsíma

Grænlenski togarinn Polar Nanoq kom aftur að Hafnarfjarðarhöfn á miðvikudaginn …
Grænlenski togarinn Polar Nanoq kom aftur að Hafnarfjarðarhöfn á miðvikudaginn 18. janúar, þar sem það hefur verið síðan. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Utanríkisráðuneyti Grænlands opnaði á fimmtudag fyrir neyðarsíma fyrir aðstandendur skipverja á grænlenska togaranum Polar Nanoq. Togarinn lagði af stað frá Hafnarfjarðarhöfn til Grænlands á laugardaginn 14. janúar en var gert að snúa við til Íslands á þriðjudegi, eftir að grunur vaknaði um að ökumenn rauðu Kia-Rio bifreiðarinnar sem leitað var, væru í áhöfninni.

Frétt mbl.is: Rauði bíllinn tengdur grænlensku skipi

Samkvæmt upplýsingum frá grænlenska utanríkisráðuneytinu var ákveðið að opna fyrir neyðarsímann til að aðstandendur gætu fengið upplýsingar um skipverja og til að þeir hefðu þar tækifæri til að miðla upplýsingum um málið til lögreglu. Síminn hefur verið opinn allan sólarhringinn síðan og hafa fjölmargir nýtt sér símanúmerið.

Myndin er tekin úr þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, og sýnir aðstæður …
Myndin er tekin úr þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, og sýnir aðstæður er komið var að Polar Nanoq um það bil 90 míl­ur suðvest­ur af Íslandi. Mynd/Landhelgisgæsla Íslands

Einhverjar hringingarnar sneru að ábendingum um mál Birnu og var þeim komið áleiðis til íslensku lögreglunnar. Hringingum hefur þó fækkað á síðustu dögum og aðeins tveir hafa hringt á síðasta sólarhringnum.

Því er líklegt að lokað verði fyrir símann á næstunni en þá verður aðstandendum bent á að hringja í Polar Seafoods, fyrirtækið sem á togarann. Fulltrúi ráðuneytisins segist ekki hafa upplýsingar um hvenær Polar Nanoq fer frá Íslandi en bendir á að grænlenska og íslenska lögreglan séu í nánu samstarfi um mál Birnu, sem og fíkniefnamálið sem kom upp við leit um borð í togaranum.

Frétt mbl.is: Fjórði maður­inn hand­tek­inn

Vitt­us Qujaukit­soq, utanríkisráðherra Grænlands, sendi Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra Íslands, bréf í gærkvöld þar sem hann sagði hug Grænlendinga vera með íslensku þjóðinni.

Frétt mbl.is: „Hug­ur Græn­lend­inga er með ykk­ur“

Samkvæmt upplýsingum mbl.is eru frekari aðgerðir varðandi mál Birnu ekki á dagskrá ráðuneytisins en það er þó ávallt tilbúið að aðstoða við hvað sem hægt er að gera frá Grænlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert