Rok og rigning í kortunum

Rok og rigning.
Rok og rigning. mbl.is/Golli

Spáð er suðaustan 13-23 fram eftir degi, hvassast norðvestan til á landinu og á miðhálendinu. Sums staðar talsverð og jafnvel mikil rigning en lengst af þurrt á Norðaustur- og Austurlandi.

Mun hægari sunnanátt í kvöld og úrkomuminna. Hlýnar, víða 4 til 8 stiga hiti í dag. Sunnan 8-13 og rigning með köflum á morgun, en hægari annað kvöld. Yfirleitt þurrt norðan- og austanlands. Hiti 1 til 6 stig, en sums staðar vægt frost norðaustan til.

„Hvöss suðlæg átt og vætusamt framan af degi, en síðan hægari og úrkomuminna. Þurrt að mestu NA- og A-lands eins og oft vill vera í suðlægum áttum. Milt í veðri.
Dregur síðan smá saman úr hlýindum þegar líður á vikuna og á miðvikudag og fimmtudag verður líklega mest öll úrkoma í slyddu eða éljaformi, þótt ekki sé gert ráð fyrir mikilli úrkomu á landinu. Eins lúrir norðaustanáttin úti fyrir Vestfjörðum en henni fylgir snjókoma, en henni gengur illa að komast inn á land. Eins og staðan er núna gæti það orðið seint á fimmtudag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veðrið næstu daga:

Á þriðjudag:
Suðlæg átt, 5-10 m/s og skúrir eða él og hiti 1 til 5 stig en úrkomulaust NA-og A-lands og vægt frost inn til landsins.

Á miðvikudag:
Suðlæg átt, 5-10 og slydda eða snjókoma með köflum og rigning af og til SA-lands en þurrt að mestu fyrir norðan. Frostlaust við sjóinn en annars vægt frost.

Á fimmtudag:
Hæg suðlæg eða breytileg átt. Snjókoma eða slydda suðaustanlands en annars úrkomulaust að kalla. Norðaustan 8-13 og snjókoma nyrst á Vestfjörðum síðdegis. Frostlaust með suðurströndinni en annars 0 til 10 stiga frost, kaldast inn til landsins.

Á föstudag:
Norðlæg átt með ofankomu um landið norðanvert og slyddu eða snjókomu suðaustanlands en þurrt á Suðvestanlandi. Frostlaust með sjónum suðaustanlands en annars allt að 10 stiga frost, kaldast inn til landsins.

Á laugardag:
Hæg austlæg átt, úrkomulítið og kalt, en vaxandi austanátt, hlýnandi veður og úrkoma um landið sunnanvert.

Á sunnudag:
Útlit fyrir sunnanátt með rigningu um morguninn. Síðan suðvestanátt og skúrir eða él og kólnar, en styttir upp A-til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert