Umboðsmaður jólasveinsins

Jólasveinaþjónusta Skyrgáms er með fjölda jólasveina á sínum snærum en …
Jólasveinaþjónusta Skyrgáms er með fjölda jólasveina á sínum snærum en 20 prósent af tekjum fyrirtækisins renna til Hjálparstarfs kirkjunnar.

„Þetta hófst allt saman þegar við vorum í menntaskóla. Hugmyndin var að hafa upp úr þessu smá aukapening en það hefur á tæpum tuttugu árum þróast út í þokkalegan rekstur,“ segir Bent H. Bendtsen, annar eigenda Jólasveinaþjónustu Skyrgáms.

Bent rekur jólasveinaþjónustuna ásamt æskuvini sínum Guðna Má Harðarsyni og hafa þeir fjölda jólasveina í vinnu hjá sér í dag.

„Við vorum fjórir félagar í þessu fyrst en erum bara tveir sem rekum þetta í dag. Stundum göntumst við með að hafa keypt hina jólasveinana út,“ segir Bent og hlær. „Reyndar var það þannig að fyrstu árin var þetta óformlegt. Við settum inn smáauglýsingu í DV og tókum að okkur allt sem var í boði. Þegar kom að því að taka ákvörðun hvort gera ætti úr þessu alvöru rekstur heltust hinir tveir úr lestinni og eftir stóðum við Guðni.“

Gjafmildir jólasveinar

Gjafmildi og gleði er stór þáttur í starfi jólasveinsins og það á einnig heldur betur við um Jólasveinaþjónustu Skyrgáms.

„Strax í upphafi ákváðum við að láta 20 prósent af veltu Skyrgáms renna til Hjálparstarfs kirkjunnar. Í ár er það tæp milljón sem við afhendum hjálparstarfinu og heildarupphæðin frá því við hófum jólasveinaferilinn er einhvers staðar í kringum 11 milljónir króna.“

Spurður af hverju Hjálparstarf kirkjunnar hafi orðið fyrir valinu og hvers vegna þeir gefi ekki til annarra hjálparstofnana og félaga, segir Bent ákvörðunina í raun ósköp einfalda.

„Þetta byrjaði allt saman hjá okkur á skemmtunum hjá KFUM og KFUK. Þannig tengjumst við starfi kirkjunnar. Það er fjöldinn allur af góðum stofnunum og hjálparsamtökum sem hægt er að gefa til en við vildum ekki þurfa að velja á milli á hverju ári heldur beina styrk okkar frekar eingöngu að Hjálparstarfi kirkjunnar.“

Skeggið breytir manni

Í dag starfar þónokkur fjöldi jólasveina hjá Skyrgámi en Bent segir þá vera um 19 talsins. Sjálfur skellir hann sér í gervi jólasveinsins og segir það enn jafn skemmtilegt og fyrir tæpum tuttugu árum.

„Þetta er alltaf jafn skemmtilegt. Það gerist eitthvað þegar þú ferð í búninginn og setur á þig skeggið. Það kemur meira galsi í þig og röddin breytist,“ segir Bent.

Börnin eru kröfuhörðustu kúnnarnir að hans sögn en jólasveinar Skyrgáms skemmta bæði börnum og fullorðnum.

„Það fer ekkert fram hjá börnunum. Þú verður að fara varlega að þeim yngri, þetta er allt svo nýtt fyrir þeim, og þau sem eru orðin aðeins eldri horfa í hvert smáatriði enda farin flest að efast um að jólasveinninn sé raunverulega til.“

Skemmtanir hjá fullorðnum eru af allt öðrum toga og segir Bent þær frekar í ætt við uppistand.

„Þetta er mismunandi á milli skemmtana en við erum líka með tónlistarmenn og bjóðum því upp á meira en bara jólasvein að sprella.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert