Voru nálægt fundarstað skónna

Fjórir skipverjar á togaranum Polar Nanoq voru handteknir en einum …
Fjórir skipverjar á togaranum Polar Nanoq voru handteknir en einum þeirra var sleppt strax að loknum yfirheyrslum. Þrír voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald, tveir vegna hvarfs Birnu en einn vegna fíkniefna sem fundust um borð. Hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi á laugardag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mennirnir tveir, sem sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um að hafa myrt Birnu Brjánsdóttur, verða væntanlega yfirheyrðir síðar í dag. Þeir hafa ekki verið upplýstir um að hún hafi fundist í gær. Staðfest hefur verið að rauða Kia Rio-bifreiðin sást í nágrenni þess staðar sem skór Birnu fundust.

Réttarmeinarannsókn hefst í dag en von er á réttarmeinalækni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til landsins um hádegi. Hann er austurrískur og starfar bæði hér á landi sem og í útlöndum við réttarmeinarannsóknir, að sögn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns sem stýrir rannsókninni á andláti Birnu. 

Grímur segir að framvinda rannsóknarinnar verði svipuð í dag og undanfarna daga, það er að áfram verði unnið úr þeim gögnum sem lögregla hefur undir höndum, svo sem úr farsímum og eftirlitsmyndavélum. Leit að Birnu er eðli málsins samkvæmt hætt þrátt fyrir að hugsanlega verði áfram leitað sönnunargagna í málinu.

Farið verður yfir alla þætti rannsóknarinnar á fundi allra þeirra sem hafa stýrt ólíkum þáttum rannsóknarinnar því þrátt fyrir að miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar hafi stýrt rannsókninni liggja þræðir hennar víða. 

Vonumst eftir því að yfirheyrslur skili árangri

Enn eru eyður varðandi ferðir rauðu bifreiðarinnar, sem annar þeirra sem situr í gæsluvarðhaldi var með á leigu helgina sem Birna hvarf, á laugardagsmorgninum 14. janúar, það er frá því um sjöleytið til klukkan 11.

„Við þennan fund í gær getum við einbeitt okkur að því að átta okkur á því hvaða leið þeir fóru þangað sem Birna fannst. Eins vonumst við til þess að fá upplýsingar um það við yfirheyrslur,“ segir Grímur.

Grímur staðfestir að upptökur hafi komið fram sem sýna rauða bílinn á laugardeginum í nágrenni þess staðar sem skór Birnu fundust við Hval­eyr­ar­lón sem er við syðsta odda hafn­ar­svæðis­ins í Hafnarfirði. 

Þrátt fyrir að fastlega sé gert ráð fyrir því að tvímenningarnir, sem eru í einangrun á Litla-Hrauni, verði yfirheyrðir í dag gæti það frestast til morguns, segir Grímur. Ekki liggur fyrir hvort Hæstiréttur hafi fallist á beiðni embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að mönnunum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í fjórar vikur. Embættið óskaði eftir því í síðustu viku en dómari við Héraðsdóm Reykjaness féllst ekki það og úrskurðaði þá í tveggja vikna gæsluvarðhald. 

Mennirnir, sem eru skipverjar á grænlenska togaranum Polar Nanoq, hafa ekki verið yfirheyrðir síðan á föstudag en þeir voru upplýstir um það við yfirheyrslur að blóð hefði fundist í bílnum. Í gær staðfesti lífsýnarannsókn sem unnin var af sérfræðingum í Svíþjóð að blóðið var úr Birnu.

Unnið er að rannsókn á hafstraumum síðustu viku á þeim slóðum sem Birna fannst í gær til þess að finna út úr því hvar henni var komið fyrir í sjónum. Birna fannst í fjörunni skammt frá Selvogsvita  eftir hádegi í gær.

Fjórir skipverjar á togaranum Polar Nanoq voru handteknir en einum þeirra var sleppt strax að loknum yfirheyrslum. Þrír voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald, tveir vegna hvarfs Birnu en einn vegna fíkniefna sem fundust um borð. Hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi á laugardag eftir að yfirheyrslum yfir honum lauk. Bæði málin eru rannsökuð af rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þrátt fyrir að tengjast ekki beint þá eru þau rannsökuð hlið við hlið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert