Eftirlitið fór út fyrir umboð sitt

Gamla bíó.
Gamla bíó. mbl.is/Árni Sæberg

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi farið út fyrir umboð sitt, þegar það tók ákvörðun um að hafna beiðni um leyfi fyrir auknum hljóðstyrk við tónleikahald í Gamla bíói.

Fyrirtækið P. Petersen ehf. hafði kært þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, frá 23. júní 2015, að hafna beiðni um leyfi fyrir auknum hljóðstyrk við tónleikahald á staðnum. Um leið var kærð sú ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins að skerða gildandi starfsleyfi fyrirtækisins.

Í andstöðu við skýr ákvæði

Í úrskurði nefndarinnar segir að ekki sé hægt að líta svo á, að umboð heilbrigðiseftirlits til að annast lögbundið eftirlit með framkvæmd laga um hollustuhætti og neytendavarnir, veitti því heimild til töku stjórnvaldsákvarðana án nokkurrar aðkomu heilbrigðisnefndar, í andstöðu við skýr ákvæði laga og reglugerða, án þess að valdframsal kæmi til.

Var kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni, þar sem heilbrigðisnefnd hafði ekki komið að málinu og því heldur ekki um að ræða lokaákvörðun í skilningi laganna, sem er skilyrði áfrýjunar til úrskurðarnefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert