Erlendir miðlar fjalla um mál Birnu

Mál Birnu hefur vakið athygli fjölmiðla víðsvegar um Evrópu og …
Mál Birnu hefur vakið athygli fjölmiðla víðsvegar um Evrópu og víðar. Skjáskot/New York Times - El País - The Süddeutsche Zeitung - Repubblica

Fjölmargir erlendir miðlar hafa síðustu vikuna fjallað um hvarf Birnu Brjánsdóttir. Enn fleiri hafa birt umfjöllun um málið eftir að Birna fannst við Selvogsvita á Reykjanesinu á sunnudag.

Fréttir hafa þannig birst í nokkrum að helstu fjölmiðlum heims, meðal annars New York Times, BBC, The Independent, The Guardian og The Washington Post, El País, Repubblica, La Depeche og The Süddeutsche Zeitung.

Eitt öruggasta land í heimi

Í umfjöllun New York Times er talað um Ísland sem eitt öruggasta land í heimi. „Það er á fáum stöðum í heiminum sem minni líkur er á að vera myrtur.“ Þá er málið rakið frá því að Birna hvarf og þar til að hún fannst, átta dögum síðar.

Haft er eftir Helga Gunnlaugssyni, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, að málið hafi fangað athygli Íslendinga, ekki bara vegna þess að morð eru fátíð hér á landi heldur einnig vegna þess að hinir grunuðu eru útlendingar og þar sem að málið virtist fyrstu dagana mikil ráðgáta.

„Flest morðmál á Íslandi eru ekki ráðgátur, fórnarlömbin og morðingjar þeirra þekkjast yfirleitt, morðingjarnir reyna sjaldnast að hylma yfir glæpinn og flest mál eru upplýst á stuttum tíma.“

Viðbrögð Grænlendinga eru einnig til umfjöllunar og kemur þar fram að málið hafi haft djúpstæð áhrif á grænlensku þjóðina og verið áberandi í fjölmiðlum þar í landi.

Að lokum er haft eftir Sigrúnu Skaftadóttur að morðið hafi nú þegar haft áhrif á hvernig Íslendingar haga sér.

„Stelpur í kringum mig ganga nú heim í fylgd með einhverjum eða taka leigubíl, jafnvel þó þær séu bara að fara stuttar vegalengdir. Ég get ekki hægt að hugsa um öll þau skipti sem ég hef labbað ein heim í Reykjavík, stundum undir áhrifum, stundum með tónlist í eyrunum, í samskiptum við ókunnuga og jafnvel að bjóða handahófskenndu fólki á barnum í eftirpartý.“

Ísland: Morð á 20 ára gamalli konu skekur alla þjóðina
Ísland: Morð á 20 ára gamalli konu skekur alla þjóðina Skjáskot/La Depeche

Leitin vekur athygli

Umfjöllunin er á svipuðum nótum í öðrum miðlum og í The Guardian er til að mynda talað um að leitin að Birnu hafi verið sú umfangsmesta sem fram hefur farið á Íslandi.

Í The Independent er haft eftir Þorsteini G. Gunnarssyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, að málið sé einstakt. „Það er mjög einstakt að ung kona hverfi í Reykjavík. Það er mjög óvenjulegt. Fólk hverfur ekki bara hérna.“

Í El País, einum stærsta miðli Spánar, er minnst á að íslenska lögreglan hafi í fyrsta skipti orðið manni að bana árið 2013. Þar er samstaðan í Grænlandi og milli Grænlendinga og Íslendinga einnig til umfjöllunar.

Á ítalska miðlinum Repubblica og franska miðlinum La Depeche segir einnig að Íslendingar séu í áfalli vegna málsins.

Þá hafa norrænir miðlar á borð við Berlingske, DR, Aftonbladet, Expressen og TV 2 í Noregi fjallað um málið allt frá því að Birna hvarf laugardaginn 14. janúar.

Frétt mbl.is: Mál Birnu vekur athygli utan landsteina

Fjölmiðlar hafa fjallað um viðbrögð við málinu bæði á Íslandi …
Fjölmiðlar hafa fjallað um viðbrögð við málinu bæði á Íslandi og Grænlandi. Skjáskot/Washington Post

Fleirir fréttamiðlar hafa einnig fjallað um málið

Mirror

FOX News

USA Today

Daily Mail

Stuff – Nýja Sjáland

The Peninsula Qatar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert