„Fljótræði“ að gefa pelsana

Fjölskylduhjálp Íslands úthlutar merktum pelsum sem það fékk að gjöf …
Fjölskylduhjálp Íslands úthlutar merktum pelsum sem það fékk að gjöf frá alþjóðlegu dýraverndarsamtökunum PETA. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér finnst allt í lagi að hætta við að gefa pelsana og segja þetta mistök. Það liggur jákvæð hugsun á bak við þessa gjöf en þetta er fljótræði,” segir Karl V. Matthíasson, prestur í Guðríðarkirkju. 

Fjöl­skyldu­hjálp Íslands fékk 200 pelsa að gjöf frá dýra­vernd­ar­sam­tök­un­um PETA. Pelsarnir eru merktir með bleiku spreyi. Þeim verður úthlutað á morgun í Reykjavík og á fimmtudaginn á Reykjanesi. 

Frétt mbl.is: Fá­tæk­um gefn­ir 200 pels­ar

„Því miður er sá veruleiki fyrir hendi að fólk skammast sín fyrir fátækt sem það á alls ekki að gera. Menn eiga ekki að gera fátækt að skömm. En af því að þetta sjónarmið er fyrir hendi í samfélaginu er ömurlegt að þessar flíkur sem eru ætlaðar fyrir fátæka séu sérmerktar,” segir Karl. 

Hann bendir á að honum þyki ankannalegt sjónarmið hjá einstaklingunum sem eru í PETA og kjósa að ganga ekki í umræddum pelsum, að ganga út frá því að annað fólk geti gert það frekar. Og það sérstaklega í merktum pelsum.

„Ef fólk hefði fengið pelsana óskemmda hefði verið hægt að selja þá og kaupa hlý og flott föt fyrir peninginn sem myndu vissulega halda hita á fólki,“ segir Karl og bendir á mótsögnina sem felst í því að merkja dýrar flíkur með þessum hætti.  

Karl segir að því miður búum við við þann veruleika að hér á landi er fátækt. Hann nefnir sérstaklega einstæðar mæður í leiguhúsnæði og í fullri vinnu, sem er oftar en ekki láglaunastarf.  

„Ég veit um margar konur sem greiða himinháa leigu hjá stórum leigufélögum því miklar kröfur eru gerðar um arð í þessum fyrirtækjum. Öll launin þeirra fara nánast í húsaleigu. Eftir stendur sáralítið fyrir þær til að greiða fyrir mat fyrir fjölskylduna,“ segir Karl og bætir við: „Ef við hættum ekki að viðhalda þessari láglaunastefnu sem hér ríkir horfum við upp á raunverulega fátækt hjá vinnandi fólki.“

Séra Karl Matthíasson starfar sem sóknarprestur í Guðríðarkirkju í Grafarholti.
Séra Karl Matthíasson starfar sem sóknarprestur í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert