Forsetinn og „strákurinn úr Borgarnesi“ í boði drottningar

Margrét Þórhildur flytur ræðu í kvöld og horfir hér á …
Margrét Þórhildur flytur ræðu í kvöld og horfir hér á Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, við hátíðarkvöldverðinn. Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Margrét Þórhildur Danadrottning bauð forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, og Elizu Reid forsetafrú til hátíðarkvöldverðar í Amalíuhöll í kvöld í Kaupmannahöfn. Veislan fór fram í höll Kristjáns VII. Fjölmennu fylgdarliði forseta var einnig boðið.

Ásamt drottningu tók Hinrik prins á móti gestum og krónprinshjónin Friðrik og María, sem munu fylgja Guðna og Elizu út um víðan völl á morgun, mættu einnig prúðbúðin. Að auki mætti Jóakim prins og kona hans María, ásamt yngri systur drottningarinnar, Benediktu prinsessu.

Guðni Th. Jóhannesson flytur sína ræðu í kvöld við hátíðarkvöldverðinn …
Guðni Th. Jóhannesson flytur sína ræðu í kvöld við hátíðarkvöldverðinn í Amalíuborg. Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Rasmussen elskar Ísland

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, var einnig boðið ásamt ríkisstjórn Dana og mætti hann í sínum allra fínustu klæðum, en Guðni ræddi við hann fyrr í dag. Rasmussen ræddi við danska fjölmiðla rétt áður en hann gekk upp í borðsalinn og sagði að hann „elskaði Ísland“ eins og hann orðaði það og náttúru landsins auk þess sem hann ítrekaði orð sín um gott samband þjóðanna.

Utanríkisráðherra nýtir ferðina vel

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er einnig með í för í þessari ferð. Mbl.is náði örstuttu tali við hann fyrr í dag en Guðlaugur, sem er nýorðinn utanríkisráðherra, segir þessa fyrstu ferð hans í starfi utanríkisráðherra óneitanlega vera sérstaka.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur ræðu sína í kvöld. …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur ræðu sína í kvöld. Lengst til hægri er utanríkisráðherann Guðlaugur Þór Þórðarson. Kona hans, Ágústa Johnson, er hér lengst til vinstri. Golli/Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta kom nú mjög á óvart. Ég vissi ekki að þetta væri ein af embættisskyldum ráðherra. En það var svolítið sérstakt fyrir strák úr Borgarnesi að mæta í dönsku konungshöllina. Þetta er eitthvað sem maður er ekki vanur, svo ekki sé dýpra í árina tekið,“ sagði Guðlaugur og hló.

Spurður hvaða þýðingu ferð sem þessi hafi bæði fyrir Ísland og hann sem utanríkisráðherra svaraði Guðlaugur:

„Hún hefur augljóslega mikla þýðingu fyrir Ísland því að þetta er mjög góð landkynning. Forsetinn og forsetafrúin koma einstaklega vel fyrir eins og við þekkjum.

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid hittu Lars Løkke Rasmussen …
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid hittu Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur fyrr í dag og hans konu, Sólrunu Jákupsdóttur Løkke Rasmussen frá Færeyjum. Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Fyrirlestur í Kaupmannahafnarháskóla

Ferðin nýtist mér á þann hátt að hún gefur tækifæri til þess að ná fundum með ráðherrum og öðrum þeim sem ég vil hitta. Ég mun hitta þrjá danska ráðherra sértaklega á fundum en að auki hef ég einnig hitt forsætisráðherrann og nokkra aðra ráðherra í óformlegu spjalli. Þetta opnar leiðir fyrir alla og auðvitað viðskiptalífið líka. En ég nýti þetta fyrst og fremst til þess að ræða við þá ráðherra sem ég þarf að hitta út af mínu starfi. Þeir fundir fara fram núna á morgun og á fimmtudaginn,“ sagði Guðlaugur Þór.

Á morgun heldur dagskráin áfram þar sem Guðni mun meðal annars fara í Árnasafn, heimsækja höfuðstöðvar danska iðnaðarins auk þess sem hann mun halda fyrirlestur í Kaupmannahafnarháskóla en á dagskrá þar eru hringborðsumræður um þjóðernishyggju og hnattvæðingu. Um kvöldið mun forsetinn bjóða Margréti Danadrottningu til standandi hlaðborðs í menningarhúsinu við Norðurbryggju þar sem formlegri dagskrá heimsóknarinnar lýkur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert