IKEA innkallar strandstól

Ljósmynd/IKEA

IKEA hefur ákveðið að innkalla strandstóla af gerðinni MYSINGSÖ vegna óhappa sem orðið hafa við notkun þeirra erlendis. Eru viðskiptavinir sem keypt hafa slíka stóla hvattir til þess að koma með þá í verslun fyrirtækisins hér á landi og fá þá endurgreidda. Ekki er nauðsynlegt að sýna kvittun til þess að fá endurgreiðslu.

Fram kemur í fréttatilkynningu að sé áklæðið á strandstólnum tekið af til þess að þvo það er hægt að setja það á aftur með röngum hætti þannig að það skapi hættu á að stóllinn gefi sig eða að notandinn klemmist. IKEA hafi borist fimm tilkynningar um að slíkir stólar hafi tengst óhöppum eftir að hafa verið settir saman á rangan hátt. Í öllum tilfellum hafi fólk slasast á fingrum en þau hafi átt sér stað í Finnlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Danmörku og Ástralíu.

Ráðist hafi verið í umfangsmiklar rannsóknir eftir að tilkynningarnar bárust sem leitt hafi til umbóta í hönnun stólsins til þess að koma í veg fyrir að mögulegt væri að setja stólinn rangt saman. Uppfærður stóll verði fáanlegur í IKEA verslunum frá apríl 2017. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert