Reykjavík gestaborg á La Mercé

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Ada Colau Ballano, borgarstjóri Barselóna, sendi Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, boðsbréf á dögunum þar sem hún býður Reykjavík að vera gestaborg á árlegri menningarhátíð borgarinnar, La Mercé.

Dagur hefur þegið boðið og mun menningar- og ferðamálasvið sjá um skipulagningu á aðkomu Reykjavíkur í Barselóna í haust.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Í boðsbréfinu segir að Reykjavík og Barselóna séu borgir sem hafa í gegnum tíðina byggt upp ásýnd sína í gegnum menningu og sköpunargleði. Báðar borgir eru bókmenntaborgir UNESCO og standa sameiginlega að menningarviðburðum eins og tónlistarhátíðinni Sónar Festival. Að auki hafa báðar borgir unnið að því að efla lýðræði og félagslegt réttlæti, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Hátíðin er skipulögð af borgarstjórn Barselóna og er einn stærsti menningarviðburður borgarinnar. Hún er haldin dagana 22. – 25. september 2017. Þúsundir gesta sækja borgina heim til að taka þátt í hátíðahöldunum þar sem menning og listir eru í fyrirrúmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert