Ætlaði inn í sturtu kvenna

mbl.is/Brynjar Gauti

Áfengis- og fíkniefnaneysla er ofarlega á blaði í verkefnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Þar á meðal var ölvaður maður sem ruddist inn á hótel við Hlemm og ætlaði sér inn í sturtuaðstöðu kvenna. 

Atvikið átti sér stað um miðnættið en starfsmanni tókst að stöðva för mannsins þegar hann var kominn upp á fjórðu hæð hótelsins. Lentu þeir í átökum en lögregla handtók óboðna gestinn og vistaði hann í fangaklefa. Þar dúsir hann þar til hægt verður að ræða við hann, það er þegar rennur af honum.

Á ellefta tímanum handtók lögreglan mann sem var með ólæti á veitingastað við Laugaveg.   Maðurinn var ofurölvi og fór ekki að fyrirmælum lögreglu og var því komið fyrir í fangaklefa og verður þar þangað til af honum rennur.

Líkt og kom fram á mbl.is í gærkvöldi var einn fluttur á slysadeild vegna umferðaróhapps á Hafnarfjarðarvegi, við Arnarnes. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var það ökumaðurinn en hann missti stjórn á bifreið sinni og endaði utan vegar.

Frétt mbl.is: Einn fluttur á slysadeild

Það sem ekki var vitað þegar fréttin var skrifuð í gærkvöldi er að ökumaðurinn var undir áhrifum bæði áfengis og fíkniefna auk þess sem hann er sviptur ökuréttindum.

Síðdegis í gær stöðvaði lögreglan för bifreiðar við Stekkjarbakka en ökumaðurinn var undir áhrifum fíkniefna. Þess fyrir utan var hann með fíkniefni á sér og ók þrátt fyrir að vera sviptur ökuréttindum.

Um sexleytið handtók lögreglan síðan ölvaðan mann í Hraunbæ og er hann vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands.

Lögreglan stöðvaði síðan för bifreiðar við Lyngás um tvö í nótt og reyndist ökumaðurinn undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann er jafnframt ekki með ökuréttindi og hefur aldrei fengið slík réttindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert