Drottningin tók brosandi á móti Guðna og Elizu

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Eliza Reid forsetafrú ásamt Margréti …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Eliza Reid forsetafrú ásamt Margréti Danadrottningu og Hinriki prins, eiginmanni hennar. mbl.is/Golli

Margrét Þórhildur Danadrottning og Hinrik prins tóku brosandi á móti Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og Elizu Reid forsetafrú í morgun á tröppum hallar Kristjáns VII, einni af höllum Amalíuborgar í Kaupmannahöfn.

Morguninn var kaldur og rakur í Kaupmannahöfn, rétt við frostmark, en þrátt fyrir það voru þeir fjölmargir sem lögðu leið sín að Amalíuborg til þess að fylgjast með athöfninni. Á að giska 100 manns voru mætt á torgið við Amalíuborg þar sem einnig sást í íslenska fána.

Guðni og Eliza komu í höllina í glæsilegustu bifreið dönsku krúnunnar, Store Krone, sem er af gerðinni Daimler, en á undan bifreiðinni fór mikið riddaralið á hestum úr lífvarðarsveit drottningar.

Guðni og Eliza ásamt sendinefndinni munu gista í Amalíuborg.

Með þessari formlegu móttökuathöfn hófst fyrsta opinbera heimsókn forsetans en henni lýkur á fimmtudag. Guðni fylgir þar með þeirri hefð sem hefur skapast að fyrsta opinbera heimsókn forseta Íslands sé til Danmerkur en það gerði Ásgeir Ásgeirsson fyrstur forseta.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er einnig með í för ásamt opinberri sendinefnd sem mætti skömmu á eftir forseta í boð drottningar.

Guðni og Eliza munu hafa í nógu að snúast í heimsókn sinni og dagskráin er nokkuð þétt í dag. Eftir móttökuathöfnina munu þau heimsækja Jónshús í Austurbrú. Í hádeginu fara forsetahjónin í Kristjánsborgarhöll, aðsetur danska þjóðþingsins, og sitja hádegisverð með Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra auk þess sem þau munu hitta forseta þingsins, Piu Kjærsgaard.

Því næst mun Guðni fara ásamt Elizu og Margréti Þórhildi í Konunglega bókasafnið, Svarta demantinn, þar sem Guðni mun meðal annars afhenda veglega bókagjöf, 700 eintök af nýrri heildarútgáfu Íslendingasagna í danskri þýðingu, en dagskráin þar er helguð handritum og fornsögum. Um kvöldið býður drottningin svo forseta og fylgdarliði til hátíðarkvöldverðar í Amalíuborgarhöll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert