Unnur Brá kjörin forseti Alþingis

Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis.
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var í dag kjörin forseti Alþingis. Var hún kjörin með 54 atkvæðum en fimm greiddu ekki atkvæði. Lýsti hún sérstakri ánægju með að taka við forsetaembættinu við þær aðstæður að hátt í helmingur þingheims væru konur.

Unnur Brá er fjórða konan sem kosin er forseti Alþingis en fyrir sameiningu þingdeilda árið 1991 höfðu þrjár konur gegnt embætti forseta sameinaðs þings, eða annarrar hvorrar þingdeildar. Þá er Unnur yngsti þingmaðurinn sem er kjörin forseti Alþingis eða sameinaðs þings síðan Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn forseti sameinaðs þings í janúar 1930, tæplega 36 ára að aldri. 

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, lét af sama tilefni af embætti en hann var kjörinn forseti Alþingis í byrjun desember þegar þing kom saman til þess að afgreiða fjárlög. Þakkaði hann þingmönnum samstarfið á stuttum embættisferli.

Kjörnir voru í forsætisnefnd eftirfarandi: Steingrímur J. Sigfússon sem fyrsti varaforseti, Jóna Sólveig Elínardóttir frá Viðreisn sem annar varaforseti, Jón Þór Ólafsson frá Pírötum sem þriðji varaforseti, Nichole Leigh Mosty frá Bjartri framtíð sem fjórði varaforseti, Þórunn Egilsdóttir frá Framsóknarflokknum sem fimmti varaforseti og Teitur Björn Einarsson frá Sjálfstæðisflokknum sem sjötti varaforseti. Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, verður áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd.

Unnur Brá hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan 2009 sem alþingismaður Suðurkjördæmis. Áður en hún náði kjöri á Alþingi var hún sveitarstjóri Rangárþings eystra.  Unnur Brá var 6. varaforseti Alþingis kjörtímabilið 2009-2013, hefur setið í iðnaðarnefnd, menntamálanefnd, félags- og tryggingamálanefnd, þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, velferðarnefnd, kjörbréfanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd og allsherjarnefnd sem hún gegndi formennsku í á síðasta kjörtímabili. Unnur Brá hefur setið í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins og var formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins 2013-2016. Unnur Brá er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert