„Við sækjumst eftir framförum“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn

Ný ríkisstjórn mun hafa jafnvægi og framsýni að leiðarstefi á kjörtímabilinu. Þetta sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld. „Við sækjumst eftir framförum en um leið viljum við að það færi okkur jafnvægi,“ sagði Bjarni.

Sagði hann rétt að ný ríkisstjórn taki við búi við góðar ytri aðstæður sem hún fær í arf og því sé krafa um að þjóðarskútunni sé stýrt með skynsömum hætti en stjórnarsáttmálinn fjalli einna helst um innviðauppbyggingu og stöðugleika. Sagði Bjarni að jafnvægi í þjófélaginu snúist ekki eingöngu um ytri gæði en margar vísbendingar sé að finna sem bendi til þess að Ísland geti gert betur til að landsmönnum líði vel. 

Heilbrigðismál í forgang

„Áskoranir í heilbrigðisþjónustunni eru margar, við leysum þær ekki allar með auknu fjármagni sem er af skornum skammti,“ sagði Bjarni en heilbrigðismál verði sett í forgang. „Við erum betur í stakk búin en aðrar þjóðir til að takast á við þennan vanda,“ bætti Bjarni við.

Ræddi hann meðal annars andlega heilsu landsmanna og þunglyndi, einkum meðal ungs fólks, sem sé heilbrigðisvandamál sem bregðast þurfi við. „Þetta er nýr veruleiki,“ sagði Bjarni og vakti í því samhengi máls á því að það væri ekki góð þróun að ungmenni óttuðust að fá ekki nægilega góð viðbrögð við því sem þau deildu á samfélagsmiðlum og það bitni á andlegri líðan þeirra. „Of margir upplifa vanlíðan, kvíði og þunglyndi þjakar marga og því miður ekki síst unga fólkið okkar,“ sagði Bjarni. 

Ræddi Bjarni um brostin hughrif um samfélagssáttmála um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, en aukin útgjöld til heilbrigðismála hafi ekki læknað þessi hughrif. Þá segir hann mikilvægt að heilbrigðisstefna hafi forvarnir að leiðarljósi, einkum hvað varðar lífstílstengda sjúkdóma.

Þá talaði Bjarni um að ríkisstjórnin ætli að auðvelda innflytjendum að vera fullgildir þátttakendur í íslensku samfélagi og vinna að því að einstaklingar með fötlun geti sjálfir stýrt þeirri þjónustu sem þeir fá. Kom fram í ræðu forsætisráðherra að ríkisstjórnin hyggist koma í gagnið svokölluðu starfsgetumati í því skyni að hjálpa þeim sem hafi skerta starfsgetu að taka þátt á vinnumarkaði.

Áfram mikilvægt að greiða niður skuldir

„Ríkisstjórnin stýrir ekki hamingju einstaklinga en aðgerðir ríkisstjórnar hafa vissulega áhrif á siglingu þjóðarskútunnar,“ sagði Bjarni. Áfram sé mikilvægt að greiða niður skuldir ríkissjóðs, vaxtagjöld séu enn of há og það sé velferðarmál að greiða áfram niður skuldir.

„Jafnvægi snýst um efnahagsmál. Það er mikil áskorun að taka við góðu búi í efnahagsmálum,“ sagði Bjarni. Hér hafi ríkt hagvöxtur í nokkur ár en sagan kenni okkur að harðna kunni aftur í ári. Ræddi hann þannig stofnun stöðugleikasjóðs og að jákvætt væri að nú, ólíkt því sem áður var, standi stoðir undir útflutningi sterkari og ekki lengur séu „öll eggin í sömu körfunni“.  

Sagði Bjarni að tvöfalda þurfi verðmæti útflutnings á næstu 15 árum en varasamt sé að treysta á að það takist eingöngu með því að auka magn útfluttrar vöru. Nær sé að leggja áherslu á aukna verðmætasköpun og byggja á hugviti til að vera samkeppnishæf á alþjóðavettvangi.

Minntist hann þess að fjárlög hafi verið samþykkt í góðri sátt í desember en þar sé kveðið á um rúmlega 50 milljarða króna útgjaldaaukningu frá árinu 2016, eða um 8% af ríkisútgjöldum. „Þessi hækkun er fyrst og fremst til velferðarmála og er fordæmalaus,“ sagði Bjarni.

Vottar fjölskyldu Birnu samúð sína

Þá sagði Bjarni menntun vera lykilinn að framtíðinni en ríkisstjórnin muni leitast við að efla öll stig skóla- og menntakerfisins og styðja við rannsóknir og þróun. Vakti hann einnig máls á því að loftslagsmál og hlýnun jarðar væri ein sú stærsta ógn sem stafi að jarðarbúum og ræddi í því samhengi fullgildingu Parísarsamkomulagsins. 

„Ég get ekki látið hjá líða að minnast með miklu þakklæti á þrotlaust starf lögreglu, björgunarsveita og landhelgisgæslu undanfarna daga við leit og rannsókn á máli Birnu Brjánsdóttur,“ sagði Bjarni, um leið og hann vottaði fjölskyldu Birnu samúð sína. „Það hefur verið huggun í þeim samhug og samstöðu sem þjóðin hefur sýnt. Ég votta Birnu og aðstandendum hennar innilega samúð mína,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert