Flúði og hékk fram af svölum

Konan segir manninn hafa beitt sig ofbeldi í áratug. Þau …
Konan segir manninn hafa beitt sig ofbeldi í áratug. Þau hafa verið gift lengi og eiga fjögur uppkomin börn. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms þess efnis að karlmaður á Suðurnesjum sæti nálgunarbanni og brottvísun af heimili sínu. Þá er honum bannað að veita konunni eftirför, nálgast hana á almannafæri, hringja í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, senda henni tölvupóst eða setja sig á annan hátt í beint samband við hana.

Maðurinn og konan hafa verið gift í mörg ár og eiga saman fjögur uppkomin börn. Konan segir manninn hafa beitt sig líkamlegu og andlegu ofbeldi í tíu ár. Hún segist óttast hann mjög mikið.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, sem Hæstiréttur hefur nú staðfest, segir að konan hafi komið á lögreglustöðuna í Keflavík að kvöldi 7. janúar og greint frá því að hún hafi orðið fyrir líkamsárás af hálfu mannsins. Lögreglan segir að konan hafi sjáanlega verið í miklu uppnámi. Konan sagði lögreglu að ágreiningur á milli hennar og mannsins fyrr um kvöldið hefði endað með því að hún hljóp út á svalir sem eru á íbúð þeirra á 3. hæð. Hún hafi hangið fram af svölunum þar til nágrannar í íbúð á hæðinni fyrir neðan hafi gripið um fætur hennar og bjargað henni. Lögreglan segir að konan hafi verið með sjáanlega áverka í andliti og verið draghölt.

Hefur hótað að drepa hana

Ítarlegri skýrsla var tekin af konunni daginn eftir. Hún sagði þá frá því að maðurinn væri mjög oft illskeyttur í hennar garð þegar hann drykki áfengi. Kvöldið áður hefði hann verið að drekka bjór og það hafi endað með því að hann kýldi hana í andlit og höfuð. Þá hafi hann rifið í hár hennar. Sagðist konan hrædd við manninn og að hún óttaðist um öryggi sitt. Taldi hún líklegt að maðurinn myndi reyna að skaða hana frekar og óttaðist að hann stæði við þá hótun sína að drepa hana. Maðurinn hafði margoft hótað því, m.a. skriflega í SMS-skilaboðum.

Konan sagði manninn mjög stjórnsaman og að hann sendi henni ítrekað SMS-skilaboð á hverjum degi. Þá megi hún ekki eiga karlkynsvini, t.d. á Facebook.

Skýrsla var tekin af eiginmanninum og neitaði hann því að hafa beitt eiginkonu sína ofbeldi. Hann sagði að konan hefði verið að nöldra í honum og svo hafi hún farið út á svalir og hótað því að stökkva fram af þeim. Sagðist hann hafa haldið í hendur hennar svo að hún myndi ekki falla fram af svölunum. Hann sagði það rangt að hann hefði beitt hana ofbeldi í tíu ár. Spurður út í áverka á konunni sagði maðurinn að þá hefði hún fengið er hún reyndi að hoppa fram af svölunum. Hann neitaði að gera samning við lögreglu um að fara tímabundið út af heimili þeirra hjóna.

Var mjög hrædd við manninn

Lögreglan fór inn á heimili hjónanna 11. janúar, nokkrum dögum eftir að konan tilkynnti árásina á lögreglustöðinni. Í greinargerð lögreglu frá þeirri heimsókn segir að konan hafi verið mjög hrædd við manninn. Hún hafi ekki þorað að afhenta lögreglu farsíma sinn því hún sagðist óttast að þá myndi maðurinn drepa hana. 

Út frá þeim gögnum sem lögreglan aflaði við rannsókn málsins þótti lögreglustjóra rökstuddur grunur vera fyrir hendi um að maðurinn hefði framið refsivert brot og/eða raskað friði konunnar. Taldi hann hættu á því að maðurinn myndi brjóta gegn konunni á ný. Því taldi hann skilyrði uppfyllt um að fara fram á nálgunarbann og brottvísun mannsins af heimilinu.

Héraðsdómur staðfesti ákvörðun lögreglustjórans og úrskurðaði manninn í nálgunarbann til 3. júlí. Hæstiréttur staðfesti nálgunarbannið en þó aðeins til 7. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert