Skoða hvar Birna fór í sjóinn

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan skoðar ákveðnar hugmyndir um hvar Birnu hafi mögulega verið varpað í sjóinn. „Engar prófanir eru hafnar á því en við erum að skoða hvað er líklegast og þrengjum svæðið,“ segir Grímur Grímsson yf­ir­lög­regluþjónn, sem fer með rann­sókn á máli Birnu Brjánsdóttur, við mbl.is. Hann vildi ekki tjá sig frekar um þær hugmyndir né hvort eða hvenær slíkar prófanir færu fram. 

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær mennirnir tveir, sem eru í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa ráðið Birnu bana, verða næst yfirheyrðir. „Þær verða ekki á næstunni,“ segir Grímur. Hann telur líklegra að þær verði um eða eftir helgina. Játning liggur ekki fyrir. 

Mennirnir tveir hafa nú báðir verið yf­ir­heyrðir í þess­ari viku. Ann­ar á þriðju­dag og hinn í gær, miðviku­dag. Fyrr í dag sagði Grímur við mbl.is að yfirheyrslan yfir öðrum manninum, sem lauk kl. 21 í gær, hafi gengið „ágætlega“. Mennirnir tveir eru á Litla-Hrauni. Yfirheyrslur hafa ýmist farið fram þar eða á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík.  

Niðurstaða á lífsýnum úr fatnaði liggur ekki fyrir

Ekki er komin niðurstaða í lífsýnum sem voru tekin af munum úr Polar Nanoq, meðal annars fötum tvímenninganna. Ekki er vitað hvenær þær niðurstöður liggja fyrir, að sögn Gríms. Endanleg niðurstaða rannsóknar á bílnum liggur heldur ekki fyrir.    

Ekkert hefur frekar skýrst hvar bíllinn var í þessa fjóra tíma um morguninn frá klukkan 7 til 11.30 daginn sem Birna hvarf. Að minnsta kosti ann­ar mann­anna fór frá Hafn­ar­fjarðar­höfn á bíln­um á þess­um tíma. 

Engin frekari leit að mögulegu vopni hefur farið fram á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert