Ævintýramenn í vanda á Vatnajökli

Alex lýsir ferðum sínum um Vatnajökul og víðar á bloggsíðu …
Alex lýsir ferðum sínum um Vatnajökul og víðar á bloggsíðu sinni. Þar segir hann m.a. sögu að því er hann leitaði skála á jöklinum. Skjáskot/Alexbellini.com

Annar mannanna tveggja, sem bíða þess nú í skála á Grímsfjalli að vera bjargað til byggða af sjálfboðaliðum björgunarsveitanna, er ítalski ævintýramaðurinn Alex Bellini sem hóf nýverið göngu yfir Vatnajökul á skíðum. Það var félagi hans sem féll í sprungu á jöklinum um hádegisbil, að því er mbl.is kemst næst.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út sem og lið björgunarsveitarmanna. Maðurinn komst upp úr sprungunni og er ekki talinn alvarlega slasaður. Þyrla Gæslunnar varð frá að hverfa en björgunarsveitarmenn eru á leiðinni að skála Jöklarannsóknarfélagsins á Grímsfjalli þar sem mennirnir dvelja. Félagarnir verða svo fluttir til byggða og sá sem slasaðist færður undir læknishendur.

Það verður þó ekki fyrr en síðdegis í dag því ferðir á jöklum eru tímafrekar.

Ætlar að dvelja í hylki á rekís

Ferð Alex yfir Vatnajökul er hluti af undirbúningi hans fyrir mun stærra verkefni. Hann hyggst dvelja í björgunarhylki sem verður komið fyrir í rekís úr jöklum Grænlands, eins og hann sagði frá í myndskeiði á mbl.is nýverið.

Frétt mbl.is: Einn á ísjaka við Grænland í ár

Hann hélt á dögunum erindi hjá Orkustofnun um áhrif loftslagsbreytinga en tilgangur ferðar hans í hylkinu er að vekja jarðarbúa til umhugsunar um áhrif loftslagsbreytinga og bráðnun jökla sem og að skrá­setja sögu og fer­il ís­jak­ans á meðan hann bráðnar í hafið.

Í frétt Fréttablaðsins um málið segir að Alex hafi áður vakið athygli fyrir ævintýramennsku. Fyrir nokkru gerði hann tilraun til að róa á sérútbúnum kajak yfir Kyrrahafið frá Perú til Ástralíu. Hann var hafði verið 295 daga á hafi úti er hann örmagnaðist, rétt áður en hann náði markmiði sínu.

Leitaði kofa á jöklinum

För Alex yfir Vatnajökul hófst fyrir skömmu. Í gær skrifaði hann á bloggsíðu sína: „Dagurinn sem ég átti að komast að kofanum, sem hefði þýtt bjargræði við þessar aðstæður, ég náði hnitunum, þetta virtist ætla að verða ein af þessum sorgarsögum. Uppgefinn, augnhárin mín og skeggið frosið, tíminn að renna út, ég trúði ekki mínum eigin augum: Nei, það var enginn kofi!“

Alex heldur svo áfram: „Sólin var að setjast, ég bjóst við hinu versta, en allt í einu, eftir að hrasa, sá ég eitthvað. Ég fór að moka snjó þar sem mér sýndist vera hurð. Og þarna var hún, hún opnaðist.“

Björgunarsveitarmenn munu koma að skálanum á Grímsfjalli síðdegis í dag eða milli kl. 16 og 16.30.

Bloggsíða Alex.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert