Auðvelda sjúklingum val á meðferð

Brottnám blöðruhálskirtils með skurðaðgerð er algengt þegar um staðbundið krabbamein …
Brottnám blöðruhálskirtils með skurðaðgerð er algengt þegar um staðbundið krabbamein er að ræða. Mynd úr safni. mbl.is/ÞÖK

Niðurstöður rannsóknar íslensks læknis í Svíþjóð sem birtar eru í doktorsritgerð hans um aukaverkanir meðferðar við krabbameini í blöðruhálskirtli hafa vakið töluverða athygli þar í landi. Höfundurinn, Jón Örn Friðriksson, sérfræðingur i þvagfæraskurðlækningum á sjúkrahúsi í Umeå í Svíþjóð, varði doktorsritgerð sína um þetta efni við Háskólann í Umeå fyrir skömmu. Hefur m.a. verið fjallað um niðurstöður hans og starfsfélaga hans í sænskum fjölmiðlum að undanförnu.

Í rannsókninni var sjónum beint að meðferðinni við sjúkdómnum og ýmsum hliðarverkunum sem geta fylgt sjúklingnum um langa hríð, jafnvel í mörg ár. Jón Örn segir í samtali við Morgunblaðið að lífslíkur þeirra sem greinist með krabbamein sem er staðbundið við blöðruhálskirtilinn séu góðar og þeir lifi yfirleitt lengi eftir meðferð, sem er annaðhvort geislameðferð eða skurðaðgerð. Ókosturinn sé hins vegar sá að báðum þessum meðferðum fylgi aukaverkanir og honum hafi þótt áhugavert að rannsaka síðbúna fylgikvilla sem komi fram eftir meðferðir vegna krabbameinsins, en þeir geta jafnvel fylgt sjúklingnum í 12 ár eftir meðferð.

Gátu skoðað 12 ára tímabil

Jón Örn segir að heilbrigðiskerfið í Svíþjóð búi yfir góðum gagnagrunnum sem hafi nýst við rannsóknina, sérstaklega gögn úr gagnagrunni þar sem allir sem greinst hafa með krabbamein í blöðruhálskirtli eru skráðir.

„Við gátum því fylgt þeim eftir í tólf ár og komumst að því að það eru frekar auknar líkur á síðbúnum aukakvillum eftir geislun heldur en aðgerðir, en flestir sem fóru í skurðaðgerð fengu sína fylgikvilla innan þriggja ára eftir aðgerðina,“ segir hann.

Fylgikvillarnir eru mismunandi eftir því undir hvora meðferðina sjúklingar hafa gengist. Lyfin eru hins vegar nánast þau sömu hvort sem beitt er geislun eða skurðaðgerð, þannig að ekki þarf að velja meðferðina út frá því að sögn hans. Algengustu hliðarverkanir skurðaðgerða eru þvagleki og vandamál vegna stinningar. „Þeir sem gangast undir geislun fá einkenni frá þvagvegum eða meltingarfærunum sem geta truflað mjög lífsgæði þeirra, m.a. vegna verkja við þvaglát, niðurgangs og blæðinga frá endaþarmi,“ segir Jón Örn.

Niðurstöður rannsóknarinnar hafa því verulega þýðingu við ákvarðanir um meðferð vegna sjúkdómsins og hvaða aukaverkanir geta komið fram hjá hverjum og einum. ,,Já, okkur finnst þetta geta hjálpað við val á meðferð,“ segir Jón Örn spurður um þetta. ,,Hér í Svíþjóð hefur fólk val á milli þess að gangast undir geislameðferð eða skurðaðgerð. Þar sem við höfum núna þessa vitneskju í höndunum myndi maður kannski mæla með því við yngri menn að þeir veldu frekar að gangast undir aðgerð en geislun þó að geislunin sé alls ekki útilokuð fyrir yngri menn,“ segir hann.

Erfitt getur verið að eiga við síðbúna fylgikvilla

Spurður hvernig sérfræðilæknar séu í stakk búnir að eiga við aukaverkanirnar segir Jón það fara eftir því um hvaða fylgikvilla er að ræða. „Það er hægt að takast á við marga fylgikvilla. Ef einkenni koma t.d. fram í þvagrás eftir aðgerðina er það mál sem er auðvelt er að laga en svo eru aðrir fylgikvillar sem er mjög erfitt að meðhöndla og krefjast jafnvel stórrar aðgerðar. Þá er ekki alltaf hægt að lofa jákvæðum árangri. Í þeim tilvikum erum við yfirleitt að tala um síðbúna fylgikvilla eftir geislun, sem getur verið mjög erfitt að eiga við,“ segir hann.

Það er markmið lækna að sögn hans að sjá til þess að allir sem greinist með sjúkdóminn fái réttar og góðar upplýsingar fyrir meðferð, þannig að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um val á meðferð.

„Hjá okkur þvagfæraskurðlæknum er það þannig að við segjum sjúklingum okkar frá greiningunni og meðferðarmöguleikunum. Svo bjóðum við þeim líka að hitta krabbameinslækni sem getur sagt þeim betur frá geisluninni þannig að sjúklingurinn geti fengið báðar hliðar málsins og síðan ákveðið sig eftir það,“ segir hann.

,,Krabbamein í blöðruhálskirtli er mjög algengur sjúkdómur og leggst á mjög marga. Þetta er algengasta krabbameinið sem leggst á karlmenn, a.m.k. á Vesturlöndum. Á Vesturlöndum og þá sérstaklega í Skandinavíu og Bandaríkjunum er þetta mjög algengur sjúkdómur meðal karla, sem hefur sennilega eitthvað með lífsstíl okkar að gera,“ segir Jón Örn að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert