Aðeins krimmar gera svona lagað

Jón von Tetzchner, stofnandi Vivaldi.
Jón von Tetzchner, stofnandi Vivaldi. mbl.is/Árni Sæberg

„Microsoft á ekki að vera að gera svona hluti. Það eru krimmar sem gera svona hluti,“ segir Jón von Tetzchner, stofnandi vafranna Opera og Vivaldi.

Eins og mbl.is greindi frá á föstudag er Jón ósáttur við að tölvurisinn Microsoft skuli  láta nýjan vafra sinn, Edge, endurstillast sjálfkrafa sem sjálfgildan vafra í hvert sinn sem Windows 10 uppfærir sig.

Frétt mbl.is: Jón sakar Microsoft um óheilindi

Var gráti næst

„Ef fólk er tæknilega sinnað er ekkert rosalega erfitt að breyta þessu til baka en það er smá flækjustig,“ segir Jón og bætir við að málið hafi verið einfaldara áður fyrr þegar notandinn var spurður hvort hann vildi vafrann eða ekki. Núna þurfa notendur að fara inn í stýrikerfið sjálfir og breyta um vafra kjósi þeir það.

„Þetta er orðið dálítið flókið fyrir fólk sem er ekki tæknilega sinnað. 72 ára gömul kona hringdi í mig og var gráti næst yfir þessu og það snerti mig,“ greinir Jón frá og telur að Microsoft eigi að leyfa fólki að ákveða sjálft hvort það noti vafrann eða ekki.

„Þeir vilja að eins margir noti vafrann sinn og hægt er, það er skiljanlegt, en það er ákveðin lína sem þú mátt ekki fara yfir. Þegar notandinn vill nota annan vafra, hvort sem það er Vivaldi, Chrome eða Firefox, þá áttu að leyfa það.“

AFP

Fjölmiðlar fá engin svör frá Microsoft

Jón nefnir að þegar Microsoft var refsað af evrópskum eftirlitsstofnunum, fyrir að láta netvafrann Internet Explorer fylgja Windows-stýrikerfinu, hafi Opera komið við sögu. Hugsanlegt sé að þess vegna hafi Microsoft ekki viljað svara fjölmiðlum sem hafa spurt út í uppfærsluna sem Jón kvartar núna yfir.

Hann bendir á að talsvert margar greinar hafi verið skrifað um málið eftir að hann vakti athygli á því á vefsíðu Vivaldi. Margir af blaðamönnunum hafi hringt í Microsoft, til dæmis í Noregi og Bandaríkjunum, og óskað eftir svörum án þess að fá þau.

Jón ætlar ekki að leggja fram kvörtun til Evrópusambandsins. „Við erum lítið fyrirtæki og viljum einbeita okkur að því sem við erum að gera. Við vonumst bara til að Microsoft skilji að þetta er ekki viturlegt hjá þeim.“

Nálægt einni milljón notenda

Spurður segir hann að notendur Vivaldi séu að nálgast eina milljón talsins. Þá er hann að tala um mánaðarlega notendur en ekki fjölda niðurhala.

„Við erum mjög stolt af því sem við erum að búa til og ég vona að fólk prófi þetta hjá okkur, ég tel að það sé þess virði,“ segir Jón og tekur fram að Vivaldi sé eini evrópski netvafrinn eftir að Kínverjar eignuðust Opera.

Vivaldi hefur verið starfræktur í átta mánuði með endanlegan vafra en tvö ár eru síðan fyrsta útgáfa vafrans var sett í loftið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert