Býr til sína eigin múmínbolla

Helga (fyrir miðju) hefur undanfarin sex ár málað múmínbolla og …
Helga (fyrir miðju) hefur undanfarin sex ár málað múmínbolla og annað postulín sem fjölskylda hennar hefur fengið að njóta. mbl.is/Golli

Múmínbollar og aðrar vörur tengdar múmínálfunum hafa undanfarin ár notið gífurlegra vinsælda hér á landi og víða um heim. Helga Nielsen gekk þó skrefinu lengra en að fara að safna slíkum bollum og málaði sína eigin bolla, sem barnabörn hennar og aðrir ættingjar hafa fengið að njóta undanfarin ár. Helga segir að skreyting postulíns og silfursmíði hafi gefið henni nýtt líf eftir að hún hætti að vinna fyrir rúmlega 10 árum.

Í heildina hefur Helga málað yfir 35 múmínbolla, sem hún hefur gefið barnabörnum sínum. Upphafið segir Helga að rekja megi til þess að hún fór á eftirlaun og hætti að vinna hjá Landsbankanum í kringum árið 2003. Þá hafði hún unnið þar í um 50 ár og segir hún að fyrst hafi sér þótt lífið búið þá. „Ég lá bara heima með tærnar upp í loft og var að mygla,“ segir hún hlæjandi. „En svo sparkaði ég í rassinn á mér og ákvað að finna mér eitthvað að gera,“ bætir hún við.

Múmínbollarnir eru orðnir meira en 35 talsins. Hér má líta …
Múmínbollarnir eru orðnir meira en 35 talsins. Hér má líta hluta þeirra. mbl.is/Golli

Helga segist alltaf hafa haft áhuga á silfursmíði og hún hafi komist að því að slík námskeið væru í boði í Gjábakka í Kópavogi. Þar var hún í silfursmíði í tvo vetur og segir að það hafi verið æðislegur tími, sérstaklega af því að hún hafi getað stundað smíðina líka heima hjá sér. Fljótlega fóru að streyma ýmiss konar skartgripir frá Helgu og fengu margir vinir og ættingjar að njóta.

Helgu er sérstaklega minnisstæð ein smíði, en þá gerði hún armbönd fyrir tvö af barnabörnum sínum, stúlku sem var að fermast og aðra sem var erlendis á þeim tíma. Sú sem var að fermast fékk sitt armband en þegar sú seinni kom frá útlöndum fannst askjan með armbandinu ekki. Helga segir að hún hafi þá talið líklegt að annaðhvort hafi armbandið farið út í blaðagám með dagblöðum sem höfðu verið á borðinu eða þá að álfarnir hafi fengið það lánað.

Helga hefur málað ýmiskonar postulín.
Helga hefur málað ýmiskonar postulín. mbl.is/Golli
Bækurnar um múmínálfana njóta mikilla vinsælda meðal fjölskyldu Helgu.
Bækurnar um múmínálfana njóta mikilla vinsælda meðal fjölskyldu Helgu. mbl.is/Golli

„Ég sagði þá að ég ætlaði að trúa því, þeir skila því þá þegar þeir eru hættir að nota armbandið,“ segir Helga. Svo leið og beið og nú síðasta sumar þegar Helga og maðurinn hennar ætluðu að flytja fannst armbandið á lokadegi flutninganna. Efst í silfurvinnukassanum sem þó hafði verið notaður í ótal skipti síðan armbandið týndist. „Ég er alveg klár á því að álfarnir hafi fengið þetta lánað,“ segir Helga.

Eftir talsverða silfursmíði sneri Helga sér þó að því að mála postulín, sem henni hafði í langan tíma þótt áhugavert. Hún keypti meðal annars stóra vasa sem hún teiknaði á fríhendis og lét svo brenna og lita eftir eigin höfði.

Vasarnir sem Helga málaði fríhendis.
Vasarnir sem Helga málaði fríhendis. mbl.is/Golli

„Svo datt mér í hug að gera múmínálfana,“ segir Helga, en bækurnar um þessar þekktu persónur voru í miklu uppáhaldi hjá bæði börnum og barnabörnum Helgu. Hún tók myndirnar í gegn úr bókum sem voru til á heimilinu og teiknaði þær svo á bollana og lét brenna. „Ég tel að bollarnir séu orðnir 35 eða fleiri í dag,“ segir hún, en hvert af elstu fjórum barnabörnunum fékk allavega sex bolla og þá voru nokkrir bollar aukalega gerðir.

Helga og Garðar Jökulsson, eiginmaður hennar, eiga í heildina átta barnabörn og eitt barnabarnabarn. Helga segir að eftir að hún kláraði múmínálfabollana hafi hún snúið sér að því að gera litla bolla með undirskál fyrir barnabarnabörnin. Þar má meðal annars líta krakkamyndir og myndir af álfum. Garðar er sjálfur listmálari og segir Helga að honum sé margt annað til lista lagt. Þannig hafi hann samið vísur og skrifað þær aftan á alla litlu bollana.

Litlu bollarnir eru bæði með mynd og vísu sem Garðar …
Litlu bollarnir eru bæði með mynd og vísu sem Garðar orti. mbl.is/Golli

Þegar líður á viðtalið kemur í ljós að postulín og silfursmíði er ekki það eina sem Helga er listamaður í að gera. Hún hefur lengi prjónað, meðal annars peysur á fjölskylduna og margt fleira. Spurð hvort einhver fleiri listsvið heilli hana á komandi árum segir Helga að hún hafi alltaf haft áhuga á glerlistinni en það eigi nú alveg eftir að koma í ljós hvort hún haldi á þá braut. „En meðan maður er svo lánsamur að hafa góða heilsu er manni margt fært,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert