Íslendingar gætu verið í vanda

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

„Við höfum fengið ábendingar og ráðuneytið hefur verið að skoða það,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, spurður hvort íslenskir ríkisborgarar hafi lent í vandræðum vegna for­seta­til­skip­unar sem Don­ald Trump, for­seti Banda­ríkj­anna, und­ir­ritaði á föstu­dag.

Sam­kvæmt henni verður ekki tekið á móti flótta­fólki til Banda­ríkj­anna næstu 120 daga auk þess sem rík­is­borg­ar­ar frá sjö ríkj­um, þar sem múslim­ar eru í meiri­hluta, munu ekki fá að ferðast til Banda­ríkj­anna.

Guðlaugur bendir á að sem betur fer séu til íslenskir ríkisborgarar sem eru fæddir utan Íslands, þar á meðal í þeim löndum sem eru á fyrrgreindum lista Trumps. Aðrar þjóðir, meðal annars Bretar, hafa bent á að breskir ríkisborgarar muni lenda í vandræðum vegna ferðalaga til Bandaríkjanna. Það sama eigi við um íslenska ríkisborgara sem hafi tvöfalt ríkisfang og eigi uppruna að rekja til einhvers ríkjanna sjö, að sögn Guðlaugs. Hann segir jafnframt að ef þeim íslensku ríkisborgurum yrði meinuð innganga í Bandaríkin á grundvelli uppruna síns mundu þeir hljóta fullan stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar. 

Frétt mbl.is: „Ger­ir illt verra ef fólki er mis­munað“

Ákvörðunin ekki rétta leiðin 

„Við hörmum þessa ákvörðun. Það er erfitt að sætta sig við mismunun á grundvelli uppruna, trúar og kynþáttar. Þetta er þvert á þær hugmyndir sem við byggjum okkar þjóðfélag á og það sama á við um hið bandaríska". Guðlaugur tekur fram að við hljótum öll að berjast gegn hryðjuverkum, sem Trump segir að sé ástæðan fyrir tilskipuninni, en þessi ákvörðum muni ekki hjálpa til við það heldur gera illt verra.  

Hann tekur fram að þessi ákvörðun Trumps sé ekki í þeim anda sem íslensk stjórnvöld eiga að venjast af stjórnvöldum í Bandaríkjunum. Guðlaugur bendir á að bandarísk þjóð samanstandi af innflytjendum sem fluttust til landsins í von um betra líf. Þeir hafi gripið þau tækifæri og nýtt vel, jafnframt eigi innflytjendur stóran þátt í því að hafa byggt upp öflugan efnahag í Bandaríkjunum. 

Á fimmtudag verður fundur í utanríkismálanefnd þar sem aðgerðir Bandaríkjaforseta gegn íbúum tiltekinna ríkja og gegn flóttafólki frá Sýrlandi verða ræddar. Utanríkisráðherra mætir á fundinn. 

 Frétt mbl.is: Ut­an­rík­is­mála­nefnd ræði aðgerðir Trumps

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert