Vígðust saman vænir prestar

Við altari Dómkirkjunnar nýverið í tilefni 40 ára vígsluafmælisins.Frá vinstri …
Við altari Dómkirkjunnar nýverið í tilefni 40 ára vígsluafmælisins.Frá vinstri eru það Gunnþór, Hjálmar, Vigfús Ingvar og Vigfús Þór. mbl.is/Golli

Ein fjölmennasta prestsvígslan í Dómkirkjunni fór fram 3. október 1976, eða fyrir rúmum 40 árum. Sigurbjörn Einarsson, þáverandi biskup Íslands, vígði sex presta í embætti, þá Vigfús Þór Árnason, Vigfús Ingvar Ingvarsson, Hjálmar Jónsson, Gunnþór Þ. Ingason, Pétur Þórarinsson og Sighvat Birgi Emilsson. Var þetta fjölmennasta vígsla í biskupstíð Sigurbjörns og ein sú fjölmennasta sem fram hefur farið hér á landi.

Síðan þá hafa prestarnir haldið hópinn og komið saman á fimm ára fresti. Þeir sem eftir lifa hittust einmitt nýverið og héldu upp á 40 ára vígsluafmælið, með því að koma fyrst saman í Dómkirkjunni í stutta bænastund og minnast látinna félaga og snæða síðan kvöldverð að því loknu saman ásamt mökum. Sighvatur og Pétur eru fallnir frá en hinir fjórir hittust og áttu góða kvöldstund með eiginkonum og ekkju sr. Péturs í Laufási, henni Ingibjörgu S. Siglaugsdóttur.

Með elstu þjónandi prestum

„Þetta var afskaplega góð stund og skemmtileg. Það er hver sjálfum sér líkur ennþá. Héldum tölu og fórum með gamanmál og síðan syngjum við yfirleitt saman sálm Péturs, Í bljúgri bæn,“ segir sr. Hjálmar um hópinn sem hittist en hann er sá eini sem enn starfar sem þjónandi prestur, á 67. aldursári. Hinir hafa látið af formlegum prestsskap eða þjóna sem afleysingaprestar. Elsti þjónandi prestur landsins er Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, vígður til prests árið 1974.

Hjálmar hefur verið í Dómkirkjunni frá árinu 2001, eftir að hafa gegnt þingmennsku um sex ára skeið. Þar áður var hann sóknarprestur á Sauðárkróki til margra ára og prófastur í Skagafirði. Eftir vígsluna 1976 var hann fyrstu fjögur árin sóknarprestur í Bólstaðarhlíðarprestakalli í A-Hún.

Frá vísluathöfninni í Dómkirkjunni 3. október árið 1976, frá vinstriVigfús …
Frá vísluathöfninni í Dómkirkjunni 3. október árið 1976, frá vinstriVigfús Ingvar, Gunnþór, Hjálmar, Vigfús Þór, Pétur og Sighvatur Birgir.

Vigfús Þór hætti sl. vor sem prestur í Grafarvogsprestakalli. Hann þjónaði þar í 27 ár en hafði þá frá vígslunni 1976 verið sóknarprestur á Siglufirði.

Vigfús Ingvar hætti fyrir rúmum sex árum í Vallanesprestakalli, með aðsetri á Egilsstöðum, en þar þjónaði hann allt frá vígslunni haustið 1976. Undanfarin ár hefur hann tekið að sér prestsembætti í afleysingum.

Gunnþór hætti sem sóknarprestur Hafnarfjarðarkirkju sumarið 2009, eftir að hafa verið þar sóknarprestur allt frá árinu 1977. Fyrsta árið eftir prestsvígsluna þjónaði hann á Suðureyri við Súgandafjörð. Undanfarin ár hefur Gunnþór sinnt ýmsum verkefnum, m.a. verið sérþjónustuprestur á Biskupsstofu, þjónað á Þingvöllum en einkum stundað rannsóknir á keltneskum áhrifum á Íslandi, enda með meistaragráðu í keltneskri kristni.

Pétur Þórarinsson lést 1. mars 2007, á 56. aldursári. Hann hafði þá verið prestur í Laufási í Grýtubakkahreppi um 16 ára skeið og prófastur Þingeyinga í sjö ár. Áður þjónaði hann í Glerárprestakalli á Akureyri, Möðruvallaprestakalli í Eyjafirði og fyrstu sex árin sem sóknarprestur var Pétur í Hálsprestakalli í S-Þingeyjarsýslu.

Sighvatur Birgir lést 1. október 2005 í Noregi, 72 ára að aldri. Fyrstu níu árin að lokinni vígslu var hann prestur á Hólum í Hjaltadal, auk þess að sinna fleiri sóknum í austanverðum Skagafirði. Frá 1985 til 1989 var hann prestur í nokkrum sóknum á Suðurlandi en fluttist síðan búferlum til Noregs þar sem hann gegndi ýmsum embættisstörfum fyrir norsku kirkjuna, bæði sem sóknarprestur og afleysingaprestur, eða þar til hann fór á eftirlaun árið 1998. Ekkja Sighvats, Anna Einarsdóttir, býr í Noregi.

Að lokinni messu í Dómkirkjunni í október 2001, þegar 25 …
Að lokinni messu í Dómkirkjunni í október 2001, þegar 25 ára vígslu-afmælis var minnst. Frá vinstri Pétur Þórarinsson, Vigfús Þór Árnason,Vigfús Ingvar Ingvarsson, Gunnþór Þ. Ingason, Hjálmar Jónsson og Sigur-björn Einarsson biskup. Sighvatur B. Emilsson var þá starfandi í Noregi. mbl.is/Ásdís

Engin eyðimerkurganga

„Við fórum á sínum tíma allir í embætti vítt og breitt um landið en héldum áfram góðum tengslum. Þetta eru orðin 40 ár en hefur ekki verið nein eyðimerkurganga, þó að Ísraelsmenn hafi verið 40 ár í eyðimörkinni. Við höfum heldur ekki fastað mjög mikið, þó að Jesús hafi fastað í 40 daga og 40 nætur í eyðimörkinni. Þetta hefur því hvorki verið eyðimerkurganga né fasta,“ segir Hjálmar, léttur í bragði að vanda.

„Við höfum allir margra góðra stunda að minnast, sérstaklega í samskiptum við fólkið í landinu og söfnuðina sem við höfum þjónað. Við erum þakklátir fyrir að hafa verið trúað til þessa hlutverks, í kirkju Krists,“ segir hann ennfremur en sama dag og þeir félagar hittust fór prestsvígsla fram í Dómkirkjunni, þar sem tvær ungar konur voru vígðar. Frá því að þeir vígðust, sex karlar, fyrir rúmum 40 árum, hefur konum fjölgað jafnt og þétt í prestastétt og í dag stunda fleiri konur en karlar guðfræðinám. Hjálmar fagnar þessari þróun þó að vissulega sé best að sem jöfnust skipting sé á milli kynja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert