Íslendingi gæti verið vísað frá Bandaríkjunum

Donald Trump, Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti. AFP

Borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hefur borist ábending um fyrirhugaða Bandaríkjaferð Íslendings sem hefur tvöfalt ríkisfang, sem gæti fallið undir tilskipun Bandaríkjaforseta sem beinast gegn flóttafólki og ríkisborgurum nokkurra ríkja.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn mbl.is hvort einhverjir búsettir á Íslandi hefðu lent í vandræðum vegna tilskipunar Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Banda­ríski al­rík­is­dóm­ar­inn Ann Donn­elly frestaði brott­vís­un­um flótta­fólks á laugardag í kjöl­far til­skip­un­ar­inn­ar sem Trump und­ir­ritaði á föstu­dag. Sam­kvæmt henni munu Banda­rík­in ekki taka á móti flótta­fólki næstu 120 daga. Þá munu rík­is­borg­ar­ar frá sjö ríkj­um, þar sem múslim­ar eru í meiri­hluta, ekki fá banda­ríska vega­bréfs­árit­un næstu þrjá mánuði. Um er að ræða Sýrland, Súdan, Sómalíu, Líbýú, Íran, Írak og Jemen. 

Utanríkisráðuneytið er að afla upplýsinga um framkvæmd tilskipunarinnar og hvort umræddum einstaklingi kunni að verða vísað frá Bandaríkjunum. Eins og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur bent á þá eru Íslendingar með tvöfalt ríkisfang frá þessum ríkjum og kunna hugsanlega að vera að fara til Bandríkjanna.

Farrah hélt að hann kæmist ekki heim

Sómalía er eitt landanna sjö og ólympíumeistarinn Mo Farrah var í gær óviss um hvort hann gæti snúið aftur til Bandaríkjanna, þar sem hann býr. Farrah, sem er fjórfaldur ólympíumeistari í landhlaupum, er með tvö­fald­an rík­is­borg­ara­rétt, bresk­an og sómalsk­an, en hann er fædd­ur í Sómal­íu. 

Bresk stjórn­völd hafa haft sam­band við Farrah og tjáð hon­um að ferðabannið eigi ekki við um íþrótta­mann­inn sem var aðlaður af bresku drottn­ing­unni á ný­árs­dag fyr­ir fram­lag hans til breskra íþrótta.

Farah seg­ir stefnu Don­alds Trump for­seta rugl­ings­lega og að hún mis­muni fólki. En næstu 90 daga mega þeir sem eru með rík­is­borg­ara­rétt í Íran, Írak, Lýb­íu, Sómal­íu, Sýr­landi, Súd­an og Jemen ekki koma til Banda­ríkj­anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert